Jul 25, 2011

Góð vika

Hef náð fínni viku núna eftir Laugaveginn þrátt fyrir að hafa misst einn dag úr þegar ég flaug út. Hef aðallega einbeitt mér að fjallahlaupum en ætla að koma léttum fjallgöngum inn í prógrammið líka, svona til að þjálfa gönguhraðan líka.

Hef gengið reglulega á fjall hér rétt hjá en sú leið er eftir malavegi upp á topp, fín til að ná upp hraða (sem hefur aukist) en leiðin kringum Mont Blanc er brattari og þarf ég því að finna mér hærri og meira krefjandi fjöll.

Jul 20, 2011

Laugavegurinn 2011

Planið í vetur var að æfa fyrir PB en mér tókst ekki að æfa nógu markvisst í vor til að eiga inni fyrir því. Ég ákvað í staðinn að taka hlaupið sem langa "æfingu" fyrir Mont blanc hlaupið í haust og var ekkert að undirbúa mig neitt sérstaklega , engin hleðsla fyrir hlaupið en ætlaði að reyna að fara þetta á gelum í staðinn. Hafði þó háleit markmið um að vera kannski á 5:35 eða svo.

Eftir að hafa hitt mann og annan í startinu kom ég mér fyrir á ráslínunni í hópi góðra hlaupara. Fyrsti km er alltaf erfiður vegna þess hve hratt er farið af stað og maður nær ekki að detta niður á rétt tempó fyrr en eftir smá skokk. Um leið og öndunin róast er hægt að fara að einbeita sér að hlaupinu. Missti reyndar 3 gel í startinu svo ég varð að hugsa aðeins orku strategíuna upp á nýtt, ætlaði að keyra á hlaupið með nógu af geli en nú leit út fyrir að vöntun yrði á orku.

Var ca. 10 eftir start og gekk vel upp fyrstu brekkurnar og reyndi að missa ekki þá sem voru næst mér allt of langt frá mér. Það gekk ágætlega upp að snjó, þá fór ég að draga á þá en ég hafði einnig sett mér það markmið að reyna að hlaupa meira af brekkunum en ég hef gert hingað til. Snjórinn var harður og gekk vel að hlaupa í honum þannig að ég hljóp alla leiðina upp í sker og var í 7-8 sæti þar (ca. 1:06) Fékk mér banana áður en stefnan var sett á Álftavatn.

Leiðin þangað var með meiri snjó en ég hafði áður séð en það var bara betra, gilin voru nefninlega full og auðvelt að hlaupa yfir þau. Þarna var ég enn í sama hópnum og í sæti 10-15 eða svo. Fór varlega niður Jökultungurnar og reyndi að ganga þær í stórum skrefum í stað þess að hlaupa (aðferð sem Sigurjón og Stebbi kenndu mér í denn), þeir sem voru með mér hurfu mér sjónum enda brunuðu flestir á fullri ferð niður. Svo var bara að sjá hvort ég næði þeim fyrir Bláfjallakvísl en það hefur hingað til gengið eftir enda tekur verulega á að dúndra niður brekkuna og hægist oft á hlaupurum næstu 3-5 kílómetrana.

Skokkaði svo að Álftavatni (2.09) og var þá farið að teygjast vel úr hópnum. Þarna fór ég að finna fyrir smá orkuskorti en ákvað að geyma tvö gel þar til ég kæmi niður í Emstrur en eina gelið sem ég átti eftir yrði að duga út sandana. Tók stutt stopp og rauk af stað í átt að ánni en sá mér til undrunar að allur hópurinn sem hafði horfið mér sjónum í Jökultungunum var að fara yfir hana. Ég náði þeim því fyrr en ég átti von á. Ég hafði hinsvegar ekki orku til að gera neitt meira en að hanga í hópnum og náði að rúlla með honum að Bláfjallakvísl en þá fór ég að dragast aftur úr.

Ég varð því bara þreyttari eftir því sem leið á Sandana og var orðinn frekar hægur fyrir Emstrur en ég kom þangað ca. eftir 3:45. Þarna voru nokkrir búnir að ná mér og ljóst að fleiri myndu gera það í Emstrunum ef ég næði ekki orkunni upp. Fékk mér gel og banana í Emstrum og tölti af stað. Emstrurnar urðu bara ein eyðumerkurganga á sama orkulevelli allan tímann, náði aldrei að rífa mig upp í almennilegt hlaup en náði að halda ágætlega áfram (að mér fannst). Náði í fyrsta skipti að fara yfir Kápuna án þess að fá krampa sem ég var mjög sáttur við og rúllaði síðan þreyttur í mark á 5:49:43.

Móttökurnar á marksvæðinu voru til fyrirmyndar og svo var gott að fara í pottinn og ræða við aðra hlaupara. Klárt að það eru komnir margir góðir hlauparar fram á sjónarviðið sem spennandi verður að fylgjast með á næstu árum.

Jul 14, 2011

Hlaup og bólgueyðandi lyf

Fyrir þá sem eru aðdáendur íbúfen og bólgueyðandi lyfja þá eru hérna tvær góðar greinar eftir Andy J. Wilkins, en hann hefur meðal annars lokið WS100 á topp tíu 6 sinnum.

Hef sjálfur tekið íbúfen og slíkt í ultrahlaupum og lenti í ruglinu í WS100 í fyrra. Tek slíkt ekki aftur.....

Kidneys:

Acute renal failure 2004:

Laugavegur 2011

Kominn heim og farinn að hlakka til Laugavegsins, er ekki í neinu sérstöku formi en læt það samt ekkert aftra mér, dúndra bara á þetta að venju og svo verður bara að koma í ljós hvernig maður hefur það niður úr Emstrunum. Reikna með fjölda manns í sub 5:30 enda veðurspá hagstæð.

Ætla ekki að carbólóda, eða amk alveg að lágmarki og fara þetta bara á nokkrum gelum. Carbólódaði ekkert fyrir hlaupið í Noregi og náði að halda ágætisorkulevel á 5 gelum (í tæpa 7 tíma) svo ég ætla að testa þetta aftur. Munurinn á hlaupunum er þó sá að Laugavegurinn er mun hraðari og verður að koma í ljós hvernig það fer...!

Óska annars öllum góðrar bætingar og þeim sem eru að fara í sitt fyrsta hlaup góðs gengis, alltaf gaman að klára þetta hlaup!

KOMASO!

Jul 10, 2011

Hornindal rundt

Skellti mér í þetta hlaup með stuttum fyrirvara þar sem ég sá það auglýst á netinu stuttu áður en ég fór í sumarfrí. Þetta er bæði heilt og hálft hlaup þ.e. 37/75 km. Ákvað að taka bjartsýnina á þetta og skrá mig í 75 km en þar sem sem þetta hlaup var haldið vikuna fyrir Laugaveginn þá var ég ekki alveg viss um að það væri góð hugmynd að fara heilt, en það færi þó eftir leiðinni.

Leiðin reyndist mjög krefjandi og skemmtileg, í skóg og fjalllendi og hæsta fjallið var 1304m. Hún var vel merkt og ekkert vandamál að rata. Leiðirnar upp og niður fjöllin voru nokkuð brattar og stundum vel grýtt á niðurleiðinni að ekki sé minnst á bleytuna en oft þurfti að hlaupa yfir mýrafláka og hætti maður fljótt að hugsa um að fá ekkert í skónna því ekki var óalgengt að sökkva upp á miðja kálfa.

Eftir 4 tíma fór ég að fá krampa og ágerðust þeir bara í restina, þótt ég drykki vatn og fengi mér salttöflur, vel heitt var á svæðinu eða 20+ gráður og sól. Ákvað að láta hálft hlaup gott heita í ár en hef áhuga á að dúndra á heilt hlaup að ári. Seinni hlutinn á að vera "léttari" að mér skilst.

Allt í allt, snilldarhlaup og vel að verki staðið hjá fámennu sveitarfélagi hér í Noregi, mikill áhugi að fá fleiri hlaupara (voru 86 total) og líkur á að Norðmenn komi með sína bestu að ári.

Leiðin í 3D

Heimasíða hlaupsins

Jul 3, 2011

Meiðsli

Fór út að skokka seinnipartinn og ætlaði að ná 30 km, var í fínum gír og rúllaði +/- 5 tempó, alveg niður undir 4:30. Var heitara en ég bjóst við og kláraði fljótt vatnið sem ég var með. Á km 22 fann ég sársauka undir vinstri ilinni innanverða og uppgötvaði að það þarna voru komin gömul meiðsl, einhverskonar tognun eða slit í sin/vöðva sem liggur í stóru tánna, ekki neitt stórt en þeim mun meira pirrandi því það er varla hægt að hreyfa sig án þess að finna fyrir þessu. Ís og íbúfen verða að vinna á þessu....!

23 km lágu í dag á ca. 5: 15 meðaltempói.

Jul 2, 2011

Storfjellet & Tyven

Frá íbúðinni minni get ég hlaupið á tvö fjöll hér skammt frá, bæði eru 400m há en leiðin á Storfjellet er 5 km löng og á Tyven 7,5 km. Íbúðin er í 100m hys svo það er minni hækkun upp á Storfjellet sem er hér ofar í brekkunni, til að fara á Tyven þarf ég að hlaupa niður að sjávarmáli fyrst. Báðar leiðirnar eru skemmtilegar, þótt mér fynnist leiðin á Tyven skemmtilegri enda meira utanvegar og brött í restina og tekur vel á, hún er líka passlega löng eða 18 km á móti 10 km.

Skaust á Storfjellet áðan og náði að bæta tímann, var 26:41 á móti mínu gamla PB 28:00. Hef grun um að ég geti farið undir 25 mín strax eftir sumarfrí. Stefni hinsvegar á 42 mín á Tyven, en ég á um 47 mín núna.

Stefnt á að ná þessu fyrir 1. ágúst, 7, 9, 13!

18 km

Rúllaði mína klassísku 18 km upp á Tyven, hljóp nú erfiðasta hlutan næstum allann, enn smá snjór eftir. Á að klára þetta á mánudaginn, ef helgin verður ekki of erfið. Eftir æfingar síðustu helgar skellti ég mér á Storfjellet (5 km, 400m hátt), sami halli nánast alla leiðina og þá festust lærin í hálfgerðum krampa og varð ekkert úr þeirri bætingu sem ég ætlaði að ná.

Miðvikudag var ég að vinna frá 06:30 - 23:30 og upp 05:30 á fimmtudeginum þannig að það varð lítið um hlaupaafrek þá dagana. Vonandi verða færri heimsóknir frá Osló og viðskiptavinum næstu mánuðina því heilu dagarnir hverfa þar sem ávallt þarf að fara út að borða á kvöldin og komið seint heim, ágætt af og til en 2-3 dagar á viku síðustu misserin geta gert mann ansi þreyttan.