Jul 20, 2011

Laugavegurinn 2011

Planið í vetur var að æfa fyrir PB en mér tókst ekki að æfa nógu markvisst í vor til að eiga inni fyrir því. Ég ákvað í staðinn að taka hlaupið sem langa "æfingu" fyrir Mont blanc hlaupið í haust og var ekkert að undirbúa mig neitt sérstaklega , engin hleðsla fyrir hlaupið en ætlaði að reyna að fara þetta á gelum í staðinn. Hafði þó háleit markmið um að vera kannski á 5:35 eða svo.

Eftir að hafa hitt mann og annan í startinu kom ég mér fyrir á ráslínunni í hópi góðra hlaupara. Fyrsti km er alltaf erfiður vegna þess hve hratt er farið af stað og maður nær ekki að detta niður á rétt tempó fyrr en eftir smá skokk. Um leið og öndunin róast er hægt að fara að einbeita sér að hlaupinu. Missti reyndar 3 gel í startinu svo ég varð að hugsa aðeins orku strategíuna upp á nýtt, ætlaði að keyra á hlaupið með nógu af geli en nú leit út fyrir að vöntun yrði á orku.

Var ca. 10 eftir start og gekk vel upp fyrstu brekkurnar og reyndi að missa ekki þá sem voru næst mér allt of langt frá mér. Það gekk ágætlega upp að snjó, þá fór ég að draga á þá en ég hafði einnig sett mér það markmið að reyna að hlaupa meira af brekkunum en ég hef gert hingað til. Snjórinn var harður og gekk vel að hlaupa í honum þannig að ég hljóp alla leiðina upp í sker og var í 7-8 sæti þar (ca. 1:06) Fékk mér banana áður en stefnan var sett á Álftavatn.

Leiðin þangað var með meiri snjó en ég hafði áður séð en það var bara betra, gilin voru nefninlega full og auðvelt að hlaupa yfir þau. Þarna var ég enn í sama hópnum og í sæti 10-15 eða svo. Fór varlega niður Jökultungurnar og reyndi að ganga þær í stórum skrefum í stað þess að hlaupa (aðferð sem Sigurjón og Stebbi kenndu mér í denn), þeir sem voru með mér hurfu mér sjónum enda brunuðu flestir á fullri ferð niður. Svo var bara að sjá hvort ég næði þeim fyrir Bláfjallakvísl en það hefur hingað til gengið eftir enda tekur verulega á að dúndra niður brekkuna og hægist oft á hlaupurum næstu 3-5 kílómetrana.

Skokkaði svo að Álftavatni (2.09) og var þá farið að teygjast vel úr hópnum. Þarna fór ég að finna fyrir smá orkuskorti en ákvað að geyma tvö gel þar til ég kæmi niður í Emstrur en eina gelið sem ég átti eftir yrði að duga út sandana. Tók stutt stopp og rauk af stað í átt að ánni en sá mér til undrunar að allur hópurinn sem hafði horfið mér sjónum í Jökultungunum var að fara yfir hana. Ég náði þeim því fyrr en ég átti von á. Ég hafði hinsvegar ekki orku til að gera neitt meira en að hanga í hópnum og náði að rúlla með honum að Bláfjallakvísl en þá fór ég að dragast aftur úr.

Ég varð því bara þreyttari eftir því sem leið á Sandana og var orðinn frekar hægur fyrir Emstrur en ég kom þangað ca. eftir 3:45. Þarna voru nokkrir búnir að ná mér og ljóst að fleiri myndu gera það í Emstrunum ef ég næði ekki orkunni upp. Fékk mér gel og banana í Emstrum og tölti af stað. Emstrurnar urðu bara ein eyðumerkurganga á sama orkulevelli allan tímann, náði aldrei að rífa mig upp í almennilegt hlaup en náði að halda ágætlega áfram (að mér fannst). Náði í fyrsta skipti að fara yfir Kápuna án þess að fá krampa sem ég var mjög sáttur við og rúllaði síðan þreyttur í mark á 5:49:43.

Móttökurnar á marksvæðinu voru til fyrirmyndar og svo var gott að fara í pottinn og ræða við aðra hlaupara. Klárt að það eru komnir margir góðir hlauparar fram á sjónarviðið sem spennandi verður að fylgjast með á næstu árum.

2 comments:

  1. Hefði ég nú hitt á þig fyrr í hlaupinu og vitað að þú værir í gelskorti hefði ég nú látið þig fá gel. Gangi þér annars vel í UTMB undirbúningi.

    ReplyDelete
  2. Þú manst það bara næst að ná mér fyrr :)

    Flott hlaup hjá þér annars, sub 5:30 er handan við hornið hjá þér.

    ReplyDelete