Dec 31, 2011

Nýtt ár

Hef tekið það rólega nú í haust, ætlaði að æfa betur en kvef núna síðustu 6 vikur hefur gert æfingarnar stopular. Held ég hafi aldrei verið kvefaður svona lengi áður. Hef náð nokkrum góðum dögum inn á milli en svo í sama farið þess á milli. Vantar örugglega allt koníak í mig!

2012 er ekki alveg full planlagt en ég er skráður í tvö hlaup, Rotterdam maraþon og Skåla opp, helsta "motbakke løp" Norðmanna. 8 km langt, 1820 metra hækkun. Ennþá hægt að skrá sig hér

Er skráður í lottóið í UTMB og fær svar um miðjan jan, er einnig (framarlega) á biðlista fyrir Hardrock 100, erfiðasta 100 mílna hlaupið segja þeir.
Heimasíðan hér: Hardrock 100

Svo planið 2012 lítur einhvern veginn svona út:

15. apríl Rotterdam maraþon
13. júlí Hardrock (ef ég næ inn af biðlistanum)
18. ágúst Skåla opp
25. ágúst UTMB

Reikna samt með að hafa önnur plön því að það er tæpt að ná inn í Hardrock, og gæti alveg eins dottið inn viku fyrir start!

Sep 23, 2011

Samantekt

Ég æfði og fór til Frakklands með allt annað í huga en það sem varð. Var handviss um að veðrið 2010 var bara undantekning frá góða veðrinu sem var 2006-2009 svo ég var ekki búinn að undirbúa hausinn nógu vel fyrir sama dæmið og í fyrra. Þegar keppninni var frestað breyttust öll mín plön og þá vantaði mig gulrót í staðinn fyrir þá sem ég hafði nelgt mig á, þ.e. að koma í mark fyrir ca. 02:00 á sunnudagsnóttina og þar með vera ca. 30-32 tíma á leiðinni. Hafði einnig planað að taka eins stutt stopp og mögulegt væri en það varð ekki.

Mínusar:
Þarf að vinna betur í hausnum, átti að keyra í gegnum hlaupið án stoppa. Drakk ekki kaffi nema einu sinni sem er alltof lítið. Var kannski ekki oft þjakaður af svefnleysi en almenn þreyta var að angra mig.

Bakpokinn sem ég var með var of lítill fyrir svona veður þegar það þarf endalaust að vera að fara í og úr jakka og slíkt. Alltof margar mínútur fóru í það að festa jakkann utan á bakpokan í staðinn fyrir að geta troðið honum í pokann. Hefði einnig mátt hafa minni jakka.

Á næsta ári mun ég koma mér fyrir mun framar á ráslínunni, að vera aftast kostar mörg sæti í lokin en hefur þó líka það í för með sér að ekki er hlaupið of hratt af stað.

Var of þungur (ekki óvænt kannski :) ) Er núna 82.2 kg og þarf niðurundir 70 kg til að gera góða hluti í þessu hlaupi.

Plúsar:
Var 20 mín hraðari fyrsta legginn en áður, veit þó ekki hvernig ég fór að því...

Útbúnaðurinn var fínn fyrir utan of lítinn bakpoka.

Orkan var alveg ótrúleg, var með gel í brúsa og kom með helminginn heim og mér reiknast til að ég hafi fengið mér sem samsvarar 7 gelum á allri leiðinni + kók á hverri stöð, súpu á annarri hverri og rúmlega einn pastaskammt. Hef aldrei borðað jafnlítið í þessari keppni og hafði aldrei mikla löngun í meiri orku. Það þakka ég Vitargo carbó lódinu.

Skórnir voru góðir, Salomon XT Wing stendur fyrir sínu en margir gerðu eins og ég hafði látið mér detta í hug þ.e. að skipta yfir í götuskó með góðri dempun fyrir seinni hlutann. Sá marga t.d. skipta yfir í nýja Nike skó eða nýja trailskó.

Sep 20, 2011

Trient til Chamonix



Rölti út í myrkrið allklæddur enda klukkan um 5 um morguninn og frekar kalt. Fáir hlauparar voru á ferli og ég gekk í rólegheitum að fjallinu en hitnaði fljótt og stoppaði enn einu sinni til að fara úr jakkanum og setja hann á pokann, í síðasta sinn ákvað ég enda búinn að fá nóg af þessum blessuðum jakka. Nú var farið að birta aðeins til og það hleypti krafti í mig og fór ég að ganga hraðar og hraðar og fór að ná öðrum hlaupurum, það kveikti vel í mér og náði ég að ganga nánasta viðstöðulaust upp á topp og nú var öndunin orðin aðeins betri. Fékk hinsvegar í fleiri skipti stingi í hamstringinn efst í fjallinu og var farinn að velta því fyrir mér hvort það væri ráðlegt að fara að æsa sig í einhverjum sprettum í restina. Upp á toppnum var glæsilegt útsýni, sólin að skríða upp fyrir fjöllin og ég sá að einn hlauparinn bara settist niður til að fylgjast með þessu en ég hélt áfram.
Nú var farið eftir stíg fyrir fjallið en sömu hæð haldið, nú fór að kólna allsvakalega því hér var ennþá skuggi og langt í að sólin færi að skína á þessa hlið fjallsins. Nennti ekki að stoppa enn einu sinni og fara í jakkann og hélt því áfram. Leiðin í næstu tímastöð Catogne var nokkuð löng og varð mér bara kaldara og kaldara þótt ég væri í langermabol og þunnu hlaupavesti. Var nánast orðinn gegnfrosinn þegar ég náði að stöðinni (144km, 31:52:55, 181 sæti) og sem betur fer höfðu þeir kveikt bál til að hlýja sér og stoppaði ég í 2 mínútur við bálið meðan ég þiðnaði.

Leiðin niður í Vallorcine er löng og oft brött og langt frá því að vera mitt uppáhald og nú hvein vel í lærunum og margir fóru framúr mér enda fór ég ekki hratt. Þegar ég fór að hitna náði ég að hlaupa hraðar og hljóp á endanum á fullri ferð niður saman með 4-5 öðrum hlaupurum síðasta spölinn sem er niður frekar erfiðan skógarstíg og svo er síðasti hlutinn lóðbeint niður í bæinn. Hljóp inn í Vallorcine stöðina (149 km, 32:58:04, 182 sæti) með stutt stopp í huga og fékk mér kók og súpu áður en ég lagði af stað í síðustu km. Fattaði þá að ég hafði ekki fengið mér gel lengi, líklega ekki síðan í Trient. Var hinsvegar fullur af orku og sá ekki neitt vit í að bæta á hana svona rétt fyrir lok hlaups. Var vel stirrður fyrstu tvo km og gat bara hlaupið stutta spretti. Reyndi samt að koma mér í gang og þegar einn hlaupari hljóp framhjá mér varð ég staðráðinn í að hanga í honum í 15 mín, ég vissi að það myndi duga til að hrista stirðleikan af mér. Var einnig umhugað að ná nokkrum sætum svona í restina, taldi mig vera í kringum 200 sæti og langaði töluvert neðar.

Það sem ég vissi líka að framundan var skógastígur sem ég þekkti og er mjög skemmtilegur og því algjör glæpur að labba. Nú fór sólin að skína þótt hitastigið væri ekkert sérstakt, líklega bara rétt yfir núllinu. Leiðinni niður í Chamonix hafði verið breytt og síðasta fjallið tekið út svo nú var bara hlaupið eftir dalbotninum sem var snöggtum skárra en 800m lóðrétt klifur sem er boðið upp á í normal leiðinni áður en brunað er niður í bæinn. Hljóp með pacernum mínum á fínum hraða og sá ég enga ástæðu til að taka framúr honum, hinsvegar þegar nær dró Argentiere fór að draga af félaganum og nú var komið að mér að draga hann áfram. Náðum fljótt nokkrum hlaupurum og einum 10 manna hópi, búinn að ná ca. 15 hugsaði ég en þarf amk að ná 25 til að vera öruggur inn á topp 200 ef eitthvað kæmi fyrir á síðustu km. Við komum samtímis inn í bæinn (154km, 34:04:44, 180 sæti) og eftir stutt kókstopp á stöðinni héldum við áfram og nú voru ca. 9 km eftir en ég vissi að leiðin yrði erfið að því leitinu að stígarnir eru þakktir grjóti og trjágreinum og ekki auðvelt að hlaupa þá. Svona stígar eru þó mitt uppáhald og sá ég strax að ég fór hraðar yfir en aðrir hlauparar og fór nú hratt að tína upp aðra hlaupara og var fljótt kominn fram úr 25 hlaupurum eftir Vallorcine.

Nú var ég kominn á fljúgandi ferð og þaut fram úr nokkrum hlaupurum sem höfðu farið framúr mér á leið niður síðasta fjallið, slóðin varð síðan bara betri og betri, minna af steinum og trjágreinum. Svo kom langur kafli upp á við og var ég nokkuð viss um að hann endaði inn á stígnum sem er hlaupinn í normal leiðinni og ég, Ásgeir og Jói höfðum tekið testhlaup á fyrr í vikunni. Vissi því akkúrat hvenær ég ætti að setja allt í rauðglóandi botn. Leiðin upp var lengri en ég átti von og nú var orðið verulega heitt, var ennþá í hlaupavestinu en ákvað að þrauka þar til ég kæmi í mark í stað þess að stoppa. Þegar ég loks komst inn á lokakaflann var ég fljótur niður á sub 4 mín pace og náði strax tveimur hlaupurum. Stutta seinna er beygt út af stígnum niður brattan malarveg og náði ég að halda góðum hraða þar niður og þar neðst beið Fríða og hlupum við saman niður í bæinn og þar bættist Helga Þóra í hópinn, stuttu seinna Siggi og Jói. Svo var hlaupið áfram niður í bæinn. Þurfti að taka mér smá pásu fyrir síðasta km til en svo var lokaspretturinn tekinn inn í bæinn eftir aðalgötunni en það er algjör skylda að taka endasprett í restina. Þar sem klukkan var að verða 11 um morguninn voru margir áhorfendur út á götunum, og var þétt röð beggja vegna síðasta km eða svo.



Sló aðeins af fyrir lokasprettinn í mark og var virkilega feginn þegar þessu hlaupi var lokið og ég gat hitt fólkið sem hafði farið með mér út í þetta ferðalag. Rétt náði að kveðja Elísabetu og Arnór en þau voru að fara heim snemma. Ásgeir jaxlinn skilaði sér svo í mark nokkrum tímum seinna á svaðalegum endaspretti að vanda.



Ansi áhugaverðu hlaupi lokið á 35:22:57, 162 sæti. Keppnin varð lengri eða 170 km þótt ég hafið lesið að hún hafi endað í 180 km og 10600m heildarhækkun (einhver hafði mælt leiðina með 2 Garmin tækjum).

Sep 19, 2011

Champex til Trient

Labbaði í gegnum bæinn og var hálfdasaður fyrstu km enda enginn hlaupari nærri og ég datt inn í minn eigin heim og tókst að villast aðeins þegar ég labbaði upp malarveg í stað þess að halda áfram meðfram malbikuðum veginum sem ég gekk á til að byrja með. Bílar keyrðu framhjá og flautuðu og þá grunaði mig að ég var ekki á réttri leið sem og var. Snéri við og hélt rétta leið út í myrkrið.
Leiðin var létt til að byrja með og allt benti í þá átt að leiðin til Trient bein og greið, einhvern veginn hafði ég bitið það í mig líka á föstudeginum þegar fréttist að CCC hlaupinu hefði verið breytt að farið yrði fyrir fjallið en ekki yfir það. Það sem hinsvegar lá í vændum eftir nokkur hundruð metra var eitthvað sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér að hægt væri að bæta inn í 100 mílna hlaup.

Náði tveimur hlaupurum eftir 3-4 km og hlupum við saman að hliði sem var merkt með endurskinsmerki. Eftir að hafa farið framhjá því byrjuðum við að hlaupa niður á móti sem var kannski ekki svo óvænt. Leiðin varð hinsvegar bara brattari og brattari og oft á tíðum flughál enda hlíðin sem við vorum að fara niður grasi vaxinn. Þetta hélt svo bara áfram og áfram þar til við fórum að hlaupa niður í gegnum zik zak veg, þ.e. í stað þess að hlaupa veginn og taka straujuðum við stystu leið í gegnum beygjurnar sem þýddi þá einnig mun brattari leið. Ekki leið á löngu þar hvína fór í lærunum og ekki síður fór heilinn á fullt að reyna að vinna úr öllum upplýsingum sem ég hafði fengið fyrr um daginn um breytingarnar á leiðinni en hann fann ekkert sem gæti skýrt þess þeysireið lóðrétt niður einhverja f...... hlíð. Svona hélt þetta áfram lengi vel og fór ég að tína upp hlaupara sem voru að klára lærin sín og gátu ekki haldið sama hraða áfram. Það var farið að fjúka all verulega í mig þegar neðar dró, hafði ekki búist við þessu og nú var ég kominn í eitthvert allt annað hlaup en lagði uppí 25 tímum fyrr. Einhver hlauparinn hafði mælt lækkunina 1000-1200m. Kom á endanum niður í einhvern bæ og hélt að það væri Martigny sem átti að vera drykkjarstöð. Hljóp um göturnar með 3 öðrum hlaupurum og á leiðinn varð á okkar vegi bar einn sem bauð upp á vatn á borði út á götu. Stoppuðum þar og frakkarnir í hópnum spurðu til vegar og það sem mér fannst ég heyra var að það væru 30 mín yfir í Martigny. Gott og vel, get sætt mig við það eftir það sem á undan er gengið, þaðan hlyti svo að vera stutt yfir í Trient hugsaði ég. Hlupum svo áfram eftir götunum niður í botn dalsins og byrjuðum svo að fikra okkur upp eftir enn einum zik zak veginum og lá hann í gegnum vínrækt (að ég held) og vínberjaklasar á runnunum beggja vegna vegarins.

Þessi ganga varð fljótt afskaplega einsleit, rölt upp malbikaðan veg um miðja nótt og umhverfið allt það sama, svefnin sótti á og af og til varð ég reikull í spori, bláu vínberjaklasarnari breyttust í leðurblökur þar sem þær héngu á hvolfi og horfðu stórum augum á mann. Síðan hrökk ég upp úr mókinu og áttaði á mig að þetta væri nú bara vínber, engar leðurblökur eða aðrir óvættir. Stuttu seinna fórum við út af veginum og byrjuðum að ganga eftir skógarstíg sem engan enda virtist ætla að taka. Þegar ofar dró fór ég að fá stingi ofarlega í hamstringin og var það svo sárt að mér leist ekkert á, komu þeir með reglulegu millibili í bæði lærin án þess að ég væri að reyna eitthvað sérstaklega á mig.

Við vorum nú orðnir ca. 8 talsins hlaupararnir sem vorum í hóp og vorum við allir jafn rammvilltir, sáum bæ langt fyrir neðan okkur en vissum ekkert hvort þetta var Trient eða Martigny eða einhver allt annar bær. Rakst þarna á Roch Horton (USA) sem hefur klárað Hardrock100 tíu sinnum sem er almennt talið erfiðasta 100 mílna hlaupið en þarna var hann búinn að klára sig, his quads were shot eins og hann orðaði það. Við héldum áfram dágóða stund eftir skógarstígnum og vorum enn hátt fyrir ofan bæinn. Loksins fór stígurinn að liggja niður á við og eftir skammastund komum við niður í Martigny stöðina (26:36:23, 165 sæti) og eftir tvö kókglös hélt ég áfram með hópnum. Nú var orðið svalt svo ég fór í jakkann og missti hina frá mér við meðan ég var að klæða mig í hann. Svo labbaði ég af stað og náði þeim fljótt, leiðin lá nú beint upp bæinn eftir malbikaðri götu sem var áreiðanlega brattari en ESB staðlar leyfðu og grillaðist ég fljótt svo aftur mátti ég stoppa og nú fara úr jakkanum. Þessi stopp til að fara úr og í jakkann í þessari keppni voru orðin fleiri en ég hafði tölur á. Náði fljótt að ná hópnum sem ég hafði misst langt fram úr mér og fór síðan fram úr honum. Hittum nokkra stráka sem stóðu við borð fyrir utan eitt húsana og buðu upp á vatn. Skv. þeim var eins tíma klifur upp á Col de Forclaz.

Varð nú ekkert of glaður við að heyra þetta enda þá þegar búinn að ganga í hálftíma upp þessa brekku, klukkutími til þýddi að hækkunin væri nálægt 1000 metrum. Varð enn og aftur hugsað til Jóa og léttu skógarstíganna hans og var farinn að stórefast um að á þann mann væri treystandi í framtíðinni. Það góða var að Col de Forclaz var á gömlu leiðinni og nú vorum við á leið inn á hana aftur eftir þennan ótrúlega útúr dúr sem við höfðum tekið. Setti nú undir mig hausinn og þrumaði upp brekkuna og fljótlega stungum ég og einn frakkinn hina af og gengum nánast viðstöðulaust upp brekkuna. Þegar ofar dró byrjuðu öndunarerfiðleikarnir að vanda en ég reyndi að láta það hafa sem minnst áhrif á mig. Hinsvegar fór ég að fá stingina í hamstringin aftur og var ég farinn að hafa áhyggur af því enda aldrei upplifað það áður. Reyndi að forðast öll óvænt átök á hann til að forðast það að togna. Af og til fékk ég hóstaköst en nú var um að ræða þurran hósta, var greinilega búinn að hósta upp öllu slími. Fór því að hafa minni áhyggjur af því að ég væri að verða veikur. Fljótlega fór ég að heyra annan hlaupara nálgast og þótt hann hóstaði einnig mikið náði hann að ganga án stoppa og náði mér fljótt. Ég missti þá tvo svo frá mér eftst í brekkunni þegar ég þurfti að stoppa á ca. 20 skrefa fresti.

Svefnleysið var alveg að gera út af við mig efst í brekkunni og þegar ég sá ljós efst þá hélt ég að það væri einhverskonar drykkjarstöð þar, var harðákveðinn í því að finna mér stól þar og setjast í hann og sofna í 5-10 mín. Þegar ég kom hinsvegar þangað upp reyndust þetta bara vera bílljós og því ekkert hægt að stoppa þarna. Bót í máli var að vegvísir sem þarna var sagði að 30 mín væru niður í Trient (gangandi) svo það yrðu ekki nema 10-15 hlaupandi. Reyndi að hlaupa eins og ég gat en lærin voru orðin ansi straujuð eftir ævintýri síðustu klukkustunda svo engin heimsmet voru sett á leiðinni niður í Trient (140 km, 29:07:05, 153 sæti). Kom þangað verulega þreyttur og slæptur og fékk mér kók og súpu. Stóð síðan upp og rölti yfir í sjúkrastofuna til að fá nudd á hægri fótinn en ég hafði hlíft vinstri fætinum allt hlaupið og var sá hægri orðinn vel snúinn og stirrður. Þegar ég kom heim sá ég að ég hafði gert gat á hælinn á báðum hægri sokkunum á þeim tveimur pörum ég notaði í hlaupinu og voru þau bæði ný og ég hef aldrei gert gat á sokkana mína á mínum hlaupaferli. Hafði greinilega notaði hægri fótinn til að bremsa niður öll fjöllin til hlífa þeim vinstri.

Í nuddinu steinsofnaði ég og fékk svo að sofa í ca. 20 mínútur í viðbót áður en ég græjaði mig af stað fyrir loka áfangan, yfir síðasta fjallið og heim, og það var ekki spurning um að dröslast heim, nú var undirbúningur hafinn fyrir að geta hlaupið síðasta áfangan með stæl og koma á fleygiferð í mark. En fyrst þyrfti ég að klöngrast yfir eitt fjall til!

Sep 18, 2011

Gran col Ferret til Champex

Fyrir framan mig blasti Ferret dalurinn í öllu sínu veldi, þótt fallegt væri um að litast skyggði á að framundan var sá hluti leiðarinn sem mig hlakkaði minnst til að hlaupa, þ.e. niður í La Fouly. Ástæðan var einföld, niðurleiðin er löng og kræklótt og þarna byrja lærin að verða aum og síðasti parturinn niður í dalinn er frekar brattur og tekur vel á. Reyndi að hlaupa þetta eins varlega og ég gat en var samt orðinn töluvert þreyttur þegar ég kom hljóp yfir brúnna í botni dalsins og yfir á hægri hluta dalsins. Byrjaði að hlaupa niður veginn í átt að La fouly og sá þá merki fyrir hlaupaleiðina á girðingu þar sem ca. 50 beljur voru fyrir innan. Fannst það skrýtið og fór eitthvað að horfa lengra upp hlíðina þegar ég sé að þar eru hlaupararar langt upp í hlíðinni. Mundi þá eftir breytingu sem gerð hafði verið á leiðinni í ár þannig að í stað þess að hlaupa niður veginn þá var okkur beint upp í fjall og þaðan niður í bæinn. Var ekki að nenna þessu auka klifri bara til þess að taka auka 3-400 metra lækkun í viðbót á lærin. Leiðin lá í gegnum beljuhópinn og stóðu flestar á stígnum sem lá þar í gegn svo eftir smá zik zak hófst klifrið upp hlíðina sem var ekki eins svakalegt og það virtist frá veginum séð. Síðan var hlaupið eftir malarvegi sem lá zik zak niður í La Fouly (110 km, 19:44:39, 194 sæti). Þarna fór ég að verða verulega aumur í lærunum og labbaði af og til nokkra metra.

Var feginn þegar ég kom niður í stöðina og fyllti á alla brúsa að vanda og fékk mér kók. Leit yfir matarborðið en hafði ekki lyst á neinu öðru en smá súpu, kroppurinn hafði næga orku ennþá og var greinilega ekki í neinni þörf fyrir meira. Þarna gerði ég þau mistök að setjast niður, átti bara að skella súpunni í mig og fara út. Eftir að hafa setið smá stund kom sú ástralska og settist hjá mér, hún var mjög öflug í hlaupa niður brekkurnar svo það kom mér ekki á óvart að hún hefði náð mér. Sagði henni að ég hefði fengið fregnir af því að leiðinni eftir Champex yrði breytt, en líka fengið að að vita frá Jóa sem hafði farið þess leið nóttina áður í CCC hlaupinu að þetta væri «fínn skógarstígur» sem hlaupin yrði í staðinn fyrir að fara yfir fjallið Bovine, 2000m hátt. Það hljómaði bara vel, en ég átti eftir að hugsa margar slæmar hugsanir til Jóa og skógarstígsins nokkrum klukkutímum síðar!

Eftir alltof langt stopp stóðum við upp og fórum út fyrir. Áttaði mig ekki á því að það var komið kvöld og sólin var nú farin og um leið hafði hitastigið fallið niður í kannski 5 gráður og sló allsvakalega að mér þegar ég kom út úr stöðinni og mátti ég stoppa og fara í jakkann til að ná upp hita. Var hálfdruslulegur þar sem við gengum eftir veginum að slóða sem liggur niður að brú en næsti hluti liggur meðfram ánni vinstrameginn í dalnum. Um leið og við beygðum niður slóðan fann ég að ég var að skána og skokkaði rólega niður að brúnni en gekk yfir hana. Þegar yfir var komið þá snarbreyttist líðanin og ég fór að hlaupa hraðar og hraðar og endanum var ég kominn á flug á stígnum meðfram ánni. Varð strax alltof heitt svo ég stoppaði til að fara úr stakknum en dúndraði svo af stað. Hlaupaleiðin þarna meðfram ánni er fjölbreytileg og mjög skemmtileg og hef ég alltaf hlaupið hana mjög hratt í fyrri hlaupum. Það sem ýtti við mér líka var að myrkrið var að skella á og mig langaði til komast niður í Praz de-Fort án þess að þurfa að taka upp ennisljósið. Náði því og hljóp að mestu að uppgöngunni upp í Champex en þá var komið kolniðarmyrkur svo ég tók upp ennisljósið.

Vissi frá fyrri hlaupum að ég hafði verið ca. hálftíma upp í Champex og ætlaði að ná því líka núna. Öndunin fór hinsvegar strax í rugl og byrjaði ég að hósta allskyns drasli upp úr lungunum. Hóstinn ágerðist bara eftir því sem ofar dró og leist mér ekki alveg nógu vel á stöðuna, vissi að ég hafði náð mér í smá hálsbólgu fyrir hlaupið en nú var spurningin hvort það væri breytast yfir í veikindi sem gætu sett strik í reikningin hvað framhaldið varðaði.

Aðstæðurnar fra starti höfðu hreinlega boðið upp á veikindi enda búið að vera rigning, snjór, heitt og ískalt til skiptis, úr og í jakkann eftir hitastigi. Síðustu metrarnir upp í Champex (124 km, 22:26.54, 163 sæti) voru jafnerfiðir og í fyrra og kom ég hóstandi inn á stöðina og þar tók ég eitt gott hóstakast til og varð ískalt um leið og ég stoppaði. Þessi hósti pirraði mig verulega, það sem pirraði mig samt meira var að ég vissi ekki hvort ég væri að veikjast og hvernig ég ætti að haga mínu hlaupi héreftir. Vissi að ég var á leið niður undir topp 100 með sama áframhaldi en ef mér versnaði þýddi það stopp einhversstaðar á leiðinni. Það voru jú 10 tímar þar til ég næði til Champex og stærstur hlutinn um nótt í köldu veðri. Ákvað að taka öruggu leiðina á þetta og klára hlaupið frekar en að eltast við sæti. Eftir að hafa fengið mér kók, ákvað ég að fara inn í svefntjaldið og ná smá yl í mig, ef ég gæti sofnað í 10 mín þá væri það plús, var samt ekki svefnþurfi. Þegar ég lagðist undir teppið fór ég að skjálfa óstjórnlega og varð á endanum að ná í fleiri teppi og samt alveg að krókna og tók 20 mín að losna við skjáltann, eftir það lá ég í 10 mín áður en ég stóð upp. Leið nú betur en ákvað fá smá nudd á sára lærvöðvana áður en ég héldi af stað. Fékk bæði nudd á læri og hamstring og voru dömurnar sérstaklega uppteknar af hamstringinum og gerðu allskyns test meðan þau héldu við hann efst. Fannst þetta bara áhugavert allt saman en hugsaði ekki meira út í það, enda var hamstringinn ekkert að angra mig, en það átti þó eftir að breytast.

Eftir nuddið hélt ég yfir í matartjaldið aftur kíkja á töfluna þar sem ég hafði séð upplýsingar um breytingarnar á leiðinni, þar stóð Champex – Trient, 14 km, 700m heildarhækkun. Það hljómaði bara vel og stemmdi við þennan «fína skógarstíg» sem Jói hafði talað um. Varð nú í fyrsta skipti svangur og ákvað að fá mér pasta áður en ég héldi af stað og gat nú klárað af disknum. Þegar ég var á leiðinni út þá mundi ég eftir bláberjabökunni sem einkenni þeirra Champex manna, hef alltaf fengið mér hana hér og því kom ekki annað til greina en að halda í hefðina. Rölti svo út og sá á klukkunni að hún var að nálgast miðnætti.

Þetta myndband lýsir leiðinni vel

Sep 17, 2011

Courmayeur til Gran Col Ferret


Tók nú upp símann og kíkti á fyrstu skilaboðin og það hljómaði svona «nr. 330, þú ert búinn að taka framúr 600 manns frá byrjun»??? mér varð svo um þegar ég sá þetta að ég stökk á fætur, skilaði pokanum og hljóp út. Skildi ekkert hvernig mér hafði tekist þetta eftir öll pissustoppin og vanlíðanina í byrjun hlaups en ætlaði aldeilis að halda þessu sæti. Í fyrsta skipti náði ég að hlaupa upp í gegnum í bæinn þótt leiðin sé brött, einhver Norðurlandabúi hljóp upp að mér þegar hann sá að ég var frá Íslandi og eftir smá spjall meðan ég hljóp sem ég var eiginlega of æstur til að meðtaka heyrði ég hann segja í kveðjuskini að ég væri þriðji Svíinn, bara Erik og einhver annar á undan mér. Þriðji Svíinn??? Ehh... what?

Framundan var klifrið upp til Refuge Bertone, sem ávallt hefur verið erfitt og þá aðallega vegna þess að það hefur verið mjög heitt en nú var mun svalara og ég náði að dúndra upp í góðu stuði. Stoppaði augnablik í R. Bertone (82 km, 14:27:47, 240 sæti) og hélt áfram inneftir dalnum að R. Bonatti og er þetta án efa ein fallegasta hlaupaleiðin í Ölpunum, hlaupið með Mont-Blanc fjallgarðinn á vinstri hönd. Þarna rakst ég á ástralska stelpu sem ég hafði séð á km 30 eða svo og auðþekkt á bleikum kompression hlífum. Skiptumst á að leiða að R. Bertone (km 90, 15:38:37, sæti 217) og komum þangað saman. Nú var orðið vel heitt og gott að komast undir tjald og fá smá skjól fyrir sólinni. Fékk mér súpu og standard tvo bolla af kóki. Rölti svo fljótlega af stað og fór fljót að hlaupa enda leiðin þægileg og niður á móti næstu km, ástralska stelpan náði mér flótt og hlupum við saman niður í Arnuva (95 km, 16:37:11, 213 sæti). Næst var á dagskrá að klifra upp á topp Gran Col Ferret 2537m og hæsta punkt leiðarinnar, 800m hækkun á 4 km. Mér hafði gengið vel þarna 2009 og náð upp á toppin á 1:15:xx. Nú leið mér betur svo ég var ákveðinn í að bæta þann tíma. Þegar ég var kominn 200m upp fór ég að finna fyrir kunnulegum öndunarerfiðleikum og fór það bara versnandi eftir því sem ofar dró og þrátt fyrir að lappirnar væru til í góða hluti voru lungun að mestu úr leik. Hefði örugglega ekki getað farið hægar síðustu metrana þótt ég hefði verið á leið upp á topp Everest án súrefnis. 2009 náði ég að hlaupa síðustu metrana svo það var stór munur á. Var feginn þegar ég loks komst upp á fjallið (99km, 18:02:01. 198 sæti). Leit til baka og sá að sú ástralska töluvert fyrir aftan mig. Var fljótur gegnum stöðina enda rokhvasst á toppnum og ískalt.

Til Courmayeur

Kom niður í Les Chapieux (50 km, 08:02:06, 452 sæti) í ágætis standi og stoppaði stutt þar, fór úr jakkanum og fór í hlaupavestið sem ég hafði tekið með mér þar sem mig grunaði að veðrið yrði oft þannig að það væri of heitt til að vera í jakka en of kalt til að vera á bolnum. Reyndist það vel auk þess reyndist það einnig plús þegar kaldast var og þá veitti ekki af auka lagi á milli bols og jakka. Strax eftir stöðinna er malbikaður vegur sem ég ætlaði að hlaupa eins og ég gæti en hallinn á honum er þannig að hann er eiginlega of erfiður til að hlaupa en of léttur til að labba. Tókst það ekki of vel og endaði ég á því að labba mestan hluta leiðarinnar að uppgöngunni til Col de la Seigne, 2516m. Fljótlega byrjaði að snjóa á okkur en ekkert alvarlegt, bara jólasnjórinn aðeins fyrr á ferðinni.

Á leiðinni upp fór ég að finna fyrir öndunarerfiðleikum og fannst það skrýtið þar sem hæðinn hafði aldrei haft áhrif á mig áður, í stað þess að geta gengið stanslaust eins og áður þá varð ég að stoppa eftir 20 skref eða svo þegar verst var. Náði samt að halda ágætlega áfram en fór síðan að gruna að þetta hefði eitthvað með kvefið að gera sem ég náði mér í fyrir hlaupið. Uppi á Col de la Seigne (60 km, 10:12:31, 417 sæti) var útsýnið stórkostlegt. Fjöllin hvít niður í ca. 1800m og þarna saknaði ég myndavélarinnar sem ég hafði ákveðið að skilja eftir heima vegna rigningarinnar. Eftir smá stopp hélt ég niður til Lac Combal en þangað er aðeins minna fall en frá Col du Bonhomme eða rúmir 500m eftir djúpum göngustígum. Lac Combal (65 km, 10:42:27, 380 sæti) stöðin er bara 2-3 tjöld og tók það mig hálftíma að hlaupa þangað niður og eftir örstopp þar hélt ég út á malarveginn í átt að Arete du Mont-Favre, 2435m. Þarna tók ég einn eitt pissustoppið og það var númer 15 frá starti (hafði fátt annað að gera fyrstu tímana en að telja pissustoppin :) )

Nú vel stemmdur fyrir síðasta legginn til Courmayeur. Veðrið var orðið býsna gott og hitinn á leið upp, og náði ég hlaupa nánast allan malarveginn að uppgöngunni að fjallinu en tók líka eftir því að það var enginn annar að hlaupa svo mig grunaði að ég væri að potast framar eftir lélegt start (að ég hélt). Síðasti hlutinn upp á Mont-Favre var erfiður, öndunin leyfði bara nokkur skref í einu og var ég farinn að hafa áhyggjur af því að þetta væri að versna. Þess utan pirraði þetta mig mikið því mér leið að öðru leyti vel. Náði toppnum rétt fyrir hádegi (69 km, 11:37:44, 332 sæti) og þaðan niður í Courmayeur er einn skemmtilegasti hluti leiðarinnar, 1235m lækkun á 9 km. Fann að lærin voru í ágætis standi og gekk ágætlega að hlaupa niður en reyndi samt að fara varlega og fóru nokkrir framúr mér. Hálftíma síðar var ég kominn niður í Col Checrouit (73 km, 12:16:12, 336 km) og eftir smá kókstopp þá hélt ég niður einn brattasta hluta leiðarinn sem tekur alltaf vel í og endar á bröttum malbikuðum stíg. Kom niður í Courmayeur (78 km, 12:56:07, 331 sæti) og eftir að hafa tekið pokann minn hljóp ég inn í íþróttahúsið og byrjaði að græja mig. Fór í nýja sokka og ákvað að halda áfram í sömu skónnum, ætlaði að bæta á gelið en sá að ég hafði varla snert það sem ég var með á brúsanum svo ég lokaði pokanum og rölti eftir pasta en ég hafði ekkert borðað fyrir utan tvær súpuskálar og kók. Settist með pastað og eftir að hafa hreyft við nokkrum pastaskrúfum henti ég restinni.

Fyrsti hlutinn - að Col du Bonhomme

ar sem ég og Ásgeir vorum frekar aftarlega fór allt rólega af stað enda flöskuhálsar með reglulegu millibili þar sem götur er þröngar en eftir að komið er út fyrir bæinn er hægt að hlaupa án hindrana. Einhvernveginn er það þannig að þótt það séu 2500 hlauparar í misjöfnu formi fyrir framan og aftan þá hlaupa allir nokkurnveginn á sama hraða fyrstu km og nánast tilgangslaust að sperra sig því það er bara hægt að græða nokkra mínútur á að sperra sig en þeim er auðvelt að tapa seinna í hlaupinu og vel það.

En fljótlega þurfti ég að stoppa til að pissa, en það sem ég vissi ekki þá var að þetta var eitt af mörgum pissustoppum á leiðinni en venjulega hef ég þurft að pissa 1-2 í allri keppninni. Leiðin lá fyrst eftir jeppaslóða í skógi áður en við beygðum í áttina að Le Houches og þar með hófst klifrið.

Ennþá var mikil rigning stígarnir óðust fljótt upp í drullu og sumstaðar voru þeir svo brattir að hlauparnir áttu í erfiðleikum með komast upp og sumir fóru.......niður!

Var í Salomin XT Wings 2 en ég valdi þá þar sem þeir hafa mjög gott grip, sérstaklega niður brekkur, og reyndust þeir einnig vel þarna í drullunni. Áfram hélt ég að pissa og var búinn að taka 5 stopp áður en toppnum (Delevret) var náð eftir ca. 2 tíma ( 2:02:24, 913 sæti). Varð hugsað til þess þegar ég carbólódaði að ég pissaði mun minna en vanalega og sennilega hefði hlaðist upp vel af aukavatni auk þess sem ég drakk töluvert fyrir startið og í byrjun hlaupsins. Ákvað að slaka á drykkjunni og koma vökvabúskapnum í jafnvægi. Að öðruleyti leið mér vel.

Var búinn að ákveða að taka brekkuna niður fjallið með ró enda að stórum hluta flughál grasbrekka og snarbrött. Náði að komast niður í St. Gervais (21 km, 3:00:47, 830 sæti) óskaðaður en það voru ansi margi sem flugu á hausinn og stóðu upp útataðir í drullu, ekki óskabyrjun fyrir þá. Þar sem ég notaði sama plan og 2009, byrjaði aftarlega þá taldi ég mig vera í kringum 900 sæti.

Stoppaði stutt þar en og taldi mig vera í það góðu standi að ég næði að hlaupa næsta legg að stærstum hluta sem og varð. Maginn var hinsvegar ekki alveg 100% og sleppti ég því að fá mér eitthvað að borða. Nú fór allt að ganga vel og ég náði að fara fram úr nokkrum en þurfti einnig oft að stoppa til að pissa og missti þá heilan helling fram úr mér aftur. Leiðin lá í gegnum sveitirnar í nágrenni St. Cervais og skiptust á malbik, slóðar sem og skógarstígar og því auðvelt að hlaupa. Veðrið var líka að skána og leit út fyrir að veðrið myndi henta mér, svalt og þurrt.

Náði til Les Contamines (31 km, 04:29:04, 670 sæti) og var bara í góðum gír, fyrir utan magann en drakk bara kók og sleppti matnum og enblíndi þess í stað að borða eitthvað á næstu stöð La Balme. Frá Les Contamines að La Balme fóru hlutirnir að ganga illa, vanlíðan og svefnleysi helltist yfir mig, prófaði að loka augunum meðan ég gekk nokkur skref í einu og virtist það virka til að vinna bug á svefnþörfinni. Tók þá ákvörðun þarna að kíkja ekki á símann fyrr en í Courmayeur, því ég vildi ekki fá neinar neikvæðar fréttir á þessum tímapunkti, t.d. að Ásgeir eða Höskuldur hefðu hætt eða ég væri enn í 900 sæti eftir alltof mörg pissustopp.

Í La Balme (39 km, 05:56:49, 520 sæti) fékk ég mér súpu sem var nú eiginlega bara vatn með bragði, leið ekki vel og var frekar pirraður yfir ástandinu því ég hafði ætlað mér að taka næsta fjall Col du Bonhomme, 2443m, með stæl. Gekk að varðeldi sem var þarna nálægt og hlýjaði mér aðeins og lét hitann þurrka fötin sem ég var í. Varð mun betri eftir að hafa náð hitanum upp og hélt af stað upp fjallið. Fylgir ákveðinn spenningur að leggja á þetta fjall enda veðrin verið misjöfn í fyrri 3 skiptin sem ég hafði farið yfir það, t.d kolsvarta þoka í eitt skiptið.

Plúsinn við að startinu var seinkað var að nú komum við upp á Col du Bonhomme (43 km, 07:20:47, sæti 468) í dagsbirtu í staðinn fyrir að vera þar um rétt eftir miðnætti. Eftir að hafa virt fyrir mér útsýnið hélt ég niður að næstu drykkjarstöð Les Chapieux en leiðin þangað er frekar krefjandi enda að mestu blautir og kræklóttir moldarstígar auk þess sem það var mikilvægt að grilla ekki á sér lærin enda 900 metra lækkun framundan.

Sep 16, 2011

Fram að starti

Vaknaði klukkan 10:30 á föstudeginum í staðinn fyrir 05:00 eins og alla aðra morgna og náði því að innheimta örlítið af útistandandi svefni. Mínusinn var sá að ég missti af því þegar Siggi og Elísabet komu í mark sem ég ætlaði alls ekki að missa af.

Fékk fljótlega að vita að startinu hefði verið seinkað, ekki kannski óvænt því dagana á undan hafði veðurspáin breyst til hins verra og spáði t.d. niður í 5 gráður á laugardeginum niður í byggð og blautu veðri. Það var því ljóst að startið yrði svipað og 2010, í rigningu.

Planið hjá mér áður en hlaupinu var seinkað var að komast í mark áður en síðasta barnum yrði lokað eða rétt eftir miðnætti á laugardeginum, fannst það ágætis markmið. Við seinkunina varð þetta markmið að engu og þess utan gerði veðurspáin það að verkum að planið breyttist í að klára hlaupið til að fá þá 4 punkta sem gæfu mér þátttökurétt að ári (sem reyndist síðan vera misskilningur því ég gat nýtt þá 4 punkta sem ég fékk 2009).

Leið dagurinn í að taka á móti TDS hlaupurum sem var virkilega gaman, og þá sérstaklega að taka á móti Siggu sem var í fyrsta sinn að taka þátt í svona löngu hlaupi og kláraði það óþreytt að því er virtist. Seinnipartur dagsins fór í allt annað en að slappa af, varð mjög þreyttur um kaffileytið en í stað þess að henda mér í rúmið þá fékk ég mér kaffi. Um sexleytið um kvöldið fékk ég hausverk en þar sem ég hafði ákveðið að taka ekki verkjalyf fyrir eða í hlaupinu þá gekk illa að losna við hann. Hélt að hann tengdist vatnsskorti eftir hita síðustu daga en fékk mér vel af vatni.

Eftir að hafa legið í rúminu fram til 10 um kvöldið fór ég á fætur og fór að græja það síðasta fyrir hlaupið. Ennþá var ég með slæman hausverk og en ákvað að fara út að startsvæðinu með Ásgeiri, þar var enginn mættur rúmlega klukkutíma fyrir hlaupið enda þónokkur rigning. Við löbbuðum því til baka í íbúðina og þar fékk ég mér tvær paracetamól og bleksterkt kaffi. Hálftíma síðar röltum við að startinu og þá hafði allt fyllst og við stilltum okkur upp aftarlega í hópnum. Var ekki í neinu stuði þar sem ég stóð klæddur í utanyfirjakka og hrollkalt. Varð hugsað til startsins 2010 og hvernig það hlaup fór, nú var veðurspáin verri og mun kaldara. Erfitt að rífa upp móralinn við þessar aðstæður, var nánast öruggur um að hlaupið yrði stoppað einhversstaðar á fyrri helming hlaupsins. Þegar hafði leiðinni verið breytt og síðasta fjallið tekið út.

En síðan var talið niður að startinu og þá var ekki um annað að gera en að setja hausinn undir sig og leggja í´ann.

Sep 13, 2011

UTMB 2011 – Undirbúningur

Vorið hafði ekki verið æfingunum í hag, mikil vinna og vesen gerði það að verkum að æfingarnar sátu á hakanum en náði að starta mér almennilega í lok júní. Hafði svo skráð mig í 70 km hlaup í Noregi aðra helgina í júlí, aðallega vegna þess að ég var búinn að ákveða að taka sumarfrí á svæðinu þar sem hlaupið var haldið. Hlaupið var hraðara og leiðin brattari upp og niður en ég hafði átt von á en þrælskemmtilegt. Ákvað þó að nóg væri komið eftir 38 km (6.40:00) enda Laugavegurinn helgina eftir. Hljóp Laugaveginn á 6:49:xx sem var svona ca. það sem ég stefndi á, vonaðist þó til að ná niðurundir 6:40:xx.

Var nokkur sáttur með formið eftir Laugaveginn, náði að hlaupa flestar brekkur svo ég hóf æfingar fyrir UTMB af krafti vikuna á eftir. Náði síðan nokkrum góðum vikum í kringum 130 km og nánast allt upp í fjöllum. 15-45 km æfingar. Lenti í smá bakslagi um miðjan ágúst þegar ég hljóp upp bratta brekku og þá var eins og lærin hefðu gefið eftir og varð ég mun verri í brekkum dagana á eftir, púlsinn varð auk þess hærri. Hægði því aðeins á og ákvað að byrja að slaka á fyrir hlaupið enda fáu hægt að bjarga á síðustu dögunum.

Þótt ég hefði óskað þess að hafa náð að æfa meir í maí og júní var ég bara ágætlega sáttur við formið eftir þessar æfingavikur.

Var mun sterkari en áður upp brekkurnar, eitthvað sem ég hafði orðið var við í Laugaveginum og hlaupinu í Noregi. Hafði smá áhyggjur af niðurhlaupunum en ég hafði ekki lagt jafnmikla áherslu á þau áður.

Flestar æfingar hljóp ég á Nike Zoom Vomero skóm sem eru mjúkir götuskór, aðallega vegna þess að ég þurfti að hlaupa smá á malbiki áður en komst inn á slóðana og einnig vegna þess að slóðarnir voru ekki það erfiðir að þörf væri á utanvegaskóm. Einn mínus við þetta var sá að álagið á vinstri öklan varð of mikið og fann ég fyrir eymslum í sinum sem studdu við öklann. Ekkert sem angraði mig við hlaupin, mátti bara vera varkár þannig að þetta versnaði ekki.

Annars var annar undirbúningur hefðbundinn, keypti mér nýjan bakpoka, hlaupabuxur og nýja skó nokkrum dögum fyrir hlaupið.

Að venju lódaði ég með Vitargo carbólóde sem hefur reynst mér vel, notaði samt ekki eins mikið og áður, kannski ¾ hluta. Svo reyndi ég að koma öklanum í stand meðan ég var ekki að hlaupa en án mikils árangurs.

Á miðvikudeginum fyrir hlaupið ákvað ég að sofa í sófanum til að vekja ekki Arnfríði sem var að fara í TDS daginn eftir, það var frekar kalt þá nóttina en ég nennti ekki að loka þakgluggunum í stofunni sem varð til þess að ég vaknaði daginn eftir með særindi í hálsinum og hósta. Ekki alveg það besta þegar 100 mílna hlaup er handan við hornið!

Að skríða saman

Er kominn á ról og farinn að skokka aftur, er samt ekki orðinn 100% eftir kvefið um daginn, lungun ennþá svolítið viðkvæm. Dreif mig samt í mína fyrstu sprettæfingu í fleiri ár á braut í kvöld. Tók 8 x 400m. Var eins og kálfur og vissi ekkert hvernig ég skyldi hafa mér í svona sprettum en var líka smá tíma að venjast brautinni þ.e. 100m merkingunum og svona. En það hafðist fyrir rest og svo var skokkað heim um áttaleytið í 15 stiga hita og fallegu veðri.

Er byrjaður á rapportinu frá UTMB og smá líkur á að hún detti inn seint á morgunn. Hef verið í núll stuði til að skrifa undanfarið vegna þreytu en nú er ég að detta í gang.

Sep 4, 2011

Recovery

Lagðist með kvef á sunnudaginn síðasta eftir hlaupið og það og óróleikinn í líkamanum eftir keppnina gerði það að verkum að hvíldin varð lítil á næturnar, bara 4-5 tímar. Var síðan beðinn um að breyta fluginu heim og vinna mið-fös í Lófóten og var ekki kominn þangað fyrr en eftir 12 tíma ferðalag frá Chamonix. Var síðan ekki kominn heim fyrr en um 22:00 föstudagskvöldið ennþá veikur þannig að laugardagurinn og meirihluti sunnudagsins fóru í að hvílast.

Fór síðan nú í kvöld út í smá skokk, enn þokkalega bjart á kvöldin og hægt að fara trail-hlaup án ljóss eftir 20:00. fór 9 km en finn að lungun eru enn veik. Lappirnar eru hinsvegar úr stáli og alveg óþreyttar eftir hlaupið.

Aug 29, 2011

The North Face® Ultra-Trail du Mont-Blanc® - Running through nature

Snilldarhlaup

Búinn að taka út minn tíu tíma svefn og allur að koma til. Ótrúlega skemmtilegt hlaup að baki með hellings af "ups and downs" og þá er ég ekki bara að tala um fjöllin. Toppurinn var svo þegar Ásgeir skilaði sér í mark á endaspretti aldarinnar!

Skrifa lýsingu á hlauoinu seinna í vikunni.

Aug 27, 2011

UTMB - Staðan

Sá rétt í þessu tilkynningu fyrir UTMB

Warning! because of the weather, the start of the UTMB was postponed on Friday until 23:30

Þannig að Ásgeir, Börkur og Höskuldur eru ekki að leggja af stað kl 18:00 heldur seinkað um 5,5 tima eða svo.

Númerin þeirra eru
Börkur: 2476
Ásgeir: 2474
Höskuldur: 3051

NÝTT: Strákarnir lögðu af stað kl 23:30 að okkar tíma.
NÝTT: Börkur kom inn á fyrstu stöð Delevret kl: 01:31
Höskuldur var þar kl 01:49
Ásgeir kl: 01:56

NÝTT kl 03:08 (að staðartíma)
Börkur kom til St. Gervais kl 02:30
Ásgeir kom þar kl: 03:06
Höskuldur kl: 03:11

Börkur er á mjög góðri siglingu og hefur unnið sig upp um ein 500 sæti frá fyrstu stöð.
2360 þátttakendur lögðu af stað í þessu hlaupi.

Delevret S-01:31 02:02:24 913
Saint Gervais S-02:29 S-02:30 03:00:47 830
Les Contamines S-03:57 04:29:04 670
La Balme S-05:25 05:56:49 520
Ref. Bonhomme S-06:49 07:20:47 468
Les Chapieux S-07:30 S-07:38 08:02:06 452
Col la Seigne S-09:41 10:12:31 417

Ásgeir byrjaði nokkuð aftarlega en er svo búinn að týna sig upp um ein 500 sæti líka.

Delevret S-01:56 02:27:40 2202
Saint Gervais S-03:06 S-03:06 03:37:36 1880
Les Contamines S-04:54 05:26:10 1758
La Balme S-06:46 07:17:27 1653
Ref. Bonhomme S-08:28 08:59:15 1610
Les Chapieux S-09:32 S-09:46 10:03:40 1722

Höskuldur er aðeins rólegri og er öðru hvoru meginn við no 2000.
Delevret S-01:49 02:20:17 1874
Saint Gervais S-03:10 S-03:11 03:41:48 1998
Les Contamines S-05:00 05:31:43 1865
La Balme S-07:11 07:42:22 2052
Ref. Bonhomme S-09:00 09:31:17 2051
Les Chapieux S-10:00 S-10:15 10:31:39 2037

Nýtt: 10:50 ísl tími.
Börkur er mættur í Courmayeur, ætlar að næra sig og halda svo ferðinni áfram.
Ásgeir var að mæta uppá fjall Col de la Seigne kl 10:23
Kl: 10:40 kom Höskuldur uppá Col de la Seigne

NÝTT: kl 11:45 Sms var að berast um breytingu á leiðinni og lengist um 4km og verður 170km.

Börkur var að fara í gengum Grand Col Ferret og er því búinn að ná hæsta toppinum á leiðinni. Er kominn í 198 sæti og heldur áfram að pikka upp fólk.
ÁSgeir og Höskuldur eru báðir farnir frá Courmayeur og allir því á ferðinni.

Kl: 20:05 kom fyrsti maður í mark Kilan Journet, Iker annar og Sebastian þriðji.

Börkur var í góðum gír í La Fouly um kl 19.

02:00
Börkur var í Champex kl 21:55, fór í nudd og nærði sig, fór þaðan út kl 23:17 eða um rúman klst.
Ásgeir er núna á leið til La Fouly, rjúkandi gangur í honum en var að spá hvort hann ætti að leggja sig smá.
Höskuldur kom 4 mínútum undir tímamörkunum í Arnuva og mætti á Col Ferret kl 01:04 OG framúr um 100 manns.
Vonandi að það gangi allt saman vel fyrir hann. Næstu tímamörk sem hann þarf að ná er í La Fouly kl 03:30

Börkur kom til Martigny kl 02:05 í sæti 165
Ásgeir kom á sama tíma til La Fouly í sæti 1142

Kl: 09:31 Börkur var í Vallorcine kl 08:32 og er á leið til Argentiére og þaðan liggur svo leiðin í mark.
Ásgeir fór frá Champex kl 7:05 og ætti því að vera í Marigny um 11:20
Höskuldur hefur hætt í Champex

Börkur mætti í mark kl 10:51 að staðartíma.
í 162 sæti, 68 í sínum aldursflokki á tímanum 35:22:57

Ásgeir var í Martigny kl 11:15

Börkur á leiðinni í mark

CCC - Staðan

Bibba og Jói eru í Courmayeur að leggja upp í CCC hlaupið sem er 98km.

En svo kom sms frá Jóa.
CCC: Important storm. Change track, directly to Bertone - Champex - Chamonix, alternative route avoiding Bovine, Catogne, Tete aux Vents. CCC verður þá 93 km með 5100m heildarhækkun.

Númerin þeirra eru
Bibba: 6279
Jói: 5320

Jói var í Champex kl 16:00 í dag (ísl tími) stoppaði þar sennilega til að nærast og er farinn á ferð aftur.
Bibba er mætt heim í Le Paradise

NÝTT 20:10 - Jói kominn til Martigny ca 60 km búnir og er í stæti 452
Annað - hér er farið að hellirigna.

NÝTT: 22.10 - Jói er kominn í Vallorcine og á því bara rétt um 14 km eftir.
Er áætlaður í mark eftir 2-3 tíma, virðist bara að vera á góðri siglingu.

Strákarnir í UTMB voru að leggja af stað út í nóttina.

NÝTT: 21:10 - Jói kominn til Argentiére, styttist og styttist í að hann mæti.
1:15 - 1:30 klst eftir.

NÝTT: 00:36 - Jói blastaði í mark á 16:33:15 er sem stendur í 323 sæti og í 98 sæti í sínum flokki.

Aug 26, 2011

Nýjasta nýtt TDS/CCC

Helga er komin í Bellevue (km 100) og á 12 km eftir. En ætti hinsvegar að detta inn í Les Houches eftir nokkrar mínútur og þaðan er ca. klukkutími í mark.

Fríða var á Col de Tricot kl: 08:00 og á ca. 3 tíma eftir í mark.

Sigga var í Les Contamines kl: 07:34 og á eftir ca. 3 tíma göngu upp í Col de Tricot og aðra þrjá tíma þaðan í mark.

Kristjana náði ekki tímamörkum á Col du Joly (80 km) en samt sem áður flott frammistaða í heitu veðri og erfiðri hlaupaleið. Hún var þá búin að vera að í tæpa 24 tíma.

Adda hætti í Comet de Roseland (km 61), einhver meiðsli að hrjá hana.

Jói var snöggur uoo í fyrstu stöð á CCC leiðinni (800m hækkun), í 381 sæti. Leiðinni var breytt þannig hópurinn fór beint upp í fjall sem þýðir biðraðir. Hann notaði tæpan klukkutíma sem er mjög gott.

Bibba var að detta inn á fyrstu stöðina líka, í sæti 1809, og var 1:29:37 þangað upp sem er ekki slæmur tími, hinsvegar eru margir fyrir framan hana og getur verið erfitt að komast framúr á einbreiðum stígum.

NÝTT kl: 12:05: Helga komin í mark og Fríða væntanleg næsta hálftímann eða svo.
Sigga kominn í Bellevue. Helga var 2,5 tíma frá Bellevue í mark svo Sigga ætti að vera þar um 14:30 að ísl. tíma.

NÝTT kl: 13:30: Fríða komin fersk í mark, Sigga er væntanleg eftir klukkutíma.
Jói kominn í La Fouly og er ca. 400 sæti, Bibba hætti í Arnuva.

Sigga kom í mark kl 14:38 að ísl tíma skælbrosandi út að eyrum.

Helga Þóra koma í mark


Fríða komin í mark


Sigga komin í mark






Aug 25, 2011

TDS - Staðan

Daníel var að detta inn fyrstur Íslendinganna í Col du Petit St-Bernard í sæti 203, Siggi var í ca. 250 sæti (La Thuile), Elísabet ca. 290 sæti. Helga Þóra og Fríða ca. 755 og 841 sæti á La Thuile).

Sigga og Kristjana voru að detta inn í La Thuile, 50/24 mín undir tímamörkum og Adda 16 mín undir.


Hæðarrit fyrir TDS

NYTT kl: 13:48: Danni hætti í Bourg St-Maurice með kálfameiðsl, Siggi Kiernan og Elísabet komu inn á sama tíma. Elísabet er 11 konan


NYTT kl: 16:36: Danni á heimleið, búið að breyta TDS leiðinni vegna veðurs og lengist hún þá um 8 km. Siggi og Elísabet ennþá fremst en hafa dottið niður í 276/277 sæti.

Sigga/Fríða/Helga eru komnar í St-Maurice, en Kristjana og Adda eiga væntanlega stutt eftir.

Nytt kl: 17:29: Allir komust til St-Maurice áður en sú stöð lokaði núna kl: 17:30. Líklega hefur breytingin á leiðinni kostað Elísabetu og Sigga nokkur sæti.

Fréttir frá þeim sem keyrðu á milli stöðva, mjög heitt var á hlaupurunum yfir daginn og voru þeir að grillast!

NÝTT 19:00: Siggi Kiernan og Elísabet voru að detta inn í Cormet de Roseland kl: 18:46, í sætum 292 og 294.
Hér er svo orðið almyrkt og hlaupararnir þurfa því að fóta sig í hlíðunum með ljósin.

Siggi og Elísabet í St.Maurice í dag, 44km búnir.



NÝTT 22.17: Siggi og Elísabet eru komin í gegnum Entre-deux-Nants og hafa náð að pikka upp einhver 20 sæti. Núna er Elísabet í 20 sæti yfir konurnar í heild - sem er frábært. Eru annars í sætum 272 og 273 í heildina.

Fríða og Helga Þóra voru í Cormet de Roseland um kl 20.55 og 20.47 - sæti 708 og 674
Sigga var að detta inn á Roseland núna kl: 22.17 - sæti 921
Kristjana og Adda þurfa eiga þá eftir að fara þar í gegn og þurfa að vera búnar að því fyrir kl 23.30
Fyrsti maður er áætlaður í mark kl. 23.18 eða eftir um klst.

NÝTT 22.50: Adda er kom í Roseland nú rétt í þessu í 958 sæti og því vel undir tímamörkin. Kristjana kom kl 22.53 í 970 sæti.

NÝTT 02.12: Elísabet og Siggi halda sig saman og voru í Les Contamines bara núna rétt í þessu, Elísabet virðist vera komin 4 sæti yfir konur í sínum aldursflokki - og enn í 20 sæti yfir fyrstu konur.
Þau eiga eftir að fara í gegnum 3 staði áður en þau koma í mark, sem að gæti tekið um 5 tíma með góðu móti en akkurat núna hafa 40 manns skilað sér í mark.

Helga Þóra og Fríða fóru í gegnum Entre-deux-Nants fyrir um 2-3 klst síðan og ná að pikka upp ansi mörg sæti milli stöðva.
Kristjana og Sigga eru með næsta checkpoint á Entre-deux-Nants, Sigga ætti sennilega að fara að detta þar inn fljótlega - og kannski klst í Kristjönu.
Adda meiddist á fæti og varð að hætta, ætti að vera að koma til byggða fljótlega.

Facebook live uppfærslurnar virðist hafa ákveðið að klára hlaupin fyrir alla, en það hefur enginn mætt í mark, uppfærslurnar virðast þó koma inn við hverja stöð en þó alltaf sem "I´ve just finished TDS" en þau eru öll úti að hlaupa í nóttinni enn.

Kristjana okkar náði ekki tímamörkunum í Col du Joly um 6 leytið í morgun.

NÝTT 06.17: Nú er allt að gerast, Siggi er á seinustu kílómetrunum, erum þannig að nú er að hoppa í brækurnar og taka á móti honum. Elísabet hefur orðið viðskila við hann og er orðin aðeins eftir á.
Fríða var í Les Contamines kl 5:39, Helga Þóra kl 05:12, Sigga var í Col du Joly kl 5:00, Kristjana hefur ekki dottið inn á Col du Joly ennþá, eða hvort hún hafi fallið á tímamörkum. Vonum það besta.
Nú skal fara og taka á móti Sigga.


NÝTT 07.35: Siggi mætti í mark á flottum tíma 23:59:25
Elísabet koma á eftir á tímanum 24:22:27.

Siggi mættur í mark


Elísabet komin í mark.





Allir komnir ´í gegnum fyrstu stöð

Allir TDS-arar hafa skilað sér á fyrstu stöð Col Chercrouit

Danni ætti að fara að detta inn á Col de la Youlaz fljótlega og strollan þá eftir honum.

TDS hlauparar

Komnir gegnum fyrstu stöðina, Danni fyrstur svo Siggi, Elísabet og Helga Þóra

Hér eru númerin, hægt að setja þau inn hér:
LIVE UTMB
Velja Fiches coureurs efst og slá inn númerin:

Helga Þóra: 8535
Elísabet: 9209
Adda: 9211
Kristjana: 8928
Sigga: 8778
Siggi: 9284
Fríða: 9249
Danni: 9104

Last dinner for TDS


Héldum sameiginlegan mat með öllum hlaupurunum í gærkvöldi en TDS hlauparar héldu af stað í morgunn. Heilmikið stuð og svo var sameiginleg myndataka við markið.

Nú er að ná í númerin og græja sig í síðasta sinn (búinn að græja sig oft síðustu daga :) ) og svo slappa af þar til ræs er kl: 18:00 (16:00 á ísl)

Aug 22, 2011

Chamonix

Kominn hingað í sjötta sinn að hlaupa, alltaf jafn gaman og ekki verra að hópurinn verður stærri með hverju árinu.

Er bara þokkalegur, smá verkur í vinstri ökla en held að það sé meira verkur í kringum öklann en öklinn sjálfur en þetta verður komið í lag fyrir föstudaginn vona ég.

Veðurspáinn hefur verið út og suður, í dag var spáð nánast vetri á laugardaginn en nú í kvöld er spáð 20 stiga hita og smá rigningu. Endar örugglega í sól og 30 stiga hita!

Aug 19, 2011

Vangelis - conquest of paradise

Þetta lag kemur manni í stuð fyrir næstu helgi

Storfjellet PB

Eftir rólega viku ákvað ég að reyna við PB upp Storfjellet, ca. 250m hækkun og 4.9 km. Fyrsti km er flatur að mestu en svo tekur hækkunin við og hlaupið eftir malarvegi upp á topp, nokkurn veginn sami halli alla leið.

Náði bætingu um 40 sek, eða 24.35 sem ég er nokkuð sáttur með enda búinn að stefna á 25 mín eða undir lengi. Fæturnir áttu meira inni en pústið ræður örugglega ekki við meira en 24:00. Þarf að æfa spretti og interval meira.

Aug 18, 2011

Spennan eykst

Flýg út á sunnudaginn svo þetta fer að styttast. Ætla að taka smá hlaup á morgunn og laugardag en svo verður hvílt að mestu fram að hlaupi. Er held ég bara í góðu ástandi en vantar örlitla hvíld til að komast yfir smá þreytu í löppunum og púlsinum í lag.

Hugsa að strategían í hlaupinu verði að vera frekar framarlega í startinu og reyna að sleppa við mesta hópinn í byrjun en slaka síðan á og taka það rólega niður fyrsta fjallið enda um að ræða skaðræðisbrekku þar niður sem klárar lærin algjörlega. Ætla því að reyna að komast vel frá henni og svo auka hraðann eftir það.

Hef verið á nánast sama tíma í Courmayeur (ca. hálft hlaup) eða 7:40-50 á laugardagsmorgni í þeim 3 hlaupum sem ég hef tekið þátt í (var stoppað í fyrra) en ætla að vera að vera aðeins fyrr á ferðinni, eða um 7.00. Held að ég geti ekki verið hraðari án þess að lenda í vandræðum seinni partinn.

Markmiðið er svo að koma góður inn í seinni helminginn og ná að hlaupa hann nokkuð skammlaust.

Ætla að einnig að reyna að stoppa sem minnst á stöðvunum, bara taka vatn, fá mér örlítið borða og fara. Hef stoppað of lengi hingað til.

Aug 15, 2011

Þreyta

Síðasta viku eða svo hefur þreyta í lærunum verið að angra mig og samhliða hefur púlsinn verið frekar hár. Átti alveg von á smá þreytu tímabili eftir æfingarnar undanfarið svo ég hef tekið því rólega og beðið eftir að ég jafnaði mig. Gekk þó hægar en ég átti von á en datt loks í gang í dag, var búinn að plana ca. 20 km túr sem byrjaði ekki vel, púlsinn hár og átti erfitt með að hlaupa upp brekkur, þolið var ekki til staðar.

Eftir 7 km fann ég púlsinn detta niður og hraðan aukast og þá vissi ég að ég væri kominn yfir þreytuna svo ég dembdi mér í næstu brekku og rúllaði létt upp hana.

Þá er bara að taka nokkrar léttar æfingar í þessari viku og taka svo góða hvíld í næstu viku.

Aug 14, 2011

UTMB 2011 - Hlaupaleiðin

UTMB Official Video - The North Face® Ultra-Trail du Mont-Blanc®

35 km langtúr (30 júlí)

Tók langtúr um daginn þ.e. langan í tíma talið en um 35 km að lengd. Hljóp fyrst upp á Storfjellet og svo þaðan hálfhring að fjallinu Tyven (en fór ekki upp á það fjall)

Kominn upp að mastrinu uppi á Storfjellet og á leið inn fjallið

UFO-inn (Flugradar)

Kominn lengra inn fjallið, UFO-inn í fjarska

Á leið til baka (á veginum milli UFO og Storfjellet)

Horft niður á malarveginn sem liggur upp á fjallið, snilldar hlaupaleið.

Tyven i fjarska, markmiðið var að fara þangað upp en ákvað að sleppa því enda grillaður eftir gott veður.

Hlaupaleiðin lá inn á eyjuna eftir veginum sem sést til hægri á myndinni.

Kominn inn á eyjuna

Að nálgast Tyven

Frekar grýtt og lítið hlaupalegt

Horft út á sundið milli Kvaloya og Söroya

Kominn niður á malarveginn sem liggur frá Tyven niður í bæ

Kominn "heim"

Jul 25, 2011

Góð vika

Hef náð fínni viku núna eftir Laugaveginn þrátt fyrir að hafa misst einn dag úr þegar ég flaug út. Hef aðallega einbeitt mér að fjallahlaupum en ætla að koma léttum fjallgöngum inn í prógrammið líka, svona til að þjálfa gönguhraðan líka.

Hef gengið reglulega á fjall hér rétt hjá en sú leið er eftir malavegi upp á topp, fín til að ná upp hraða (sem hefur aukist) en leiðin kringum Mont Blanc er brattari og þarf ég því að finna mér hærri og meira krefjandi fjöll.

Jul 20, 2011

Laugavegurinn 2011

Planið í vetur var að æfa fyrir PB en mér tókst ekki að æfa nógu markvisst í vor til að eiga inni fyrir því. Ég ákvað í staðinn að taka hlaupið sem langa "æfingu" fyrir Mont blanc hlaupið í haust og var ekkert að undirbúa mig neitt sérstaklega , engin hleðsla fyrir hlaupið en ætlaði að reyna að fara þetta á gelum í staðinn. Hafði þó háleit markmið um að vera kannski á 5:35 eða svo.

Eftir að hafa hitt mann og annan í startinu kom ég mér fyrir á ráslínunni í hópi góðra hlaupara. Fyrsti km er alltaf erfiður vegna þess hve hratt er farið af stað og maður nær ekki að detta niður á rétt tempó fyrr en eftir smá skokk. Um leið og öndunin róast er hægt að fara að einbeita sér að hlaupinu. Missti reyndar 3 gel í startinu svo ég varð að hugsa aðeins orku strategíuna upp á nýtt, ætlaði að keyra á hlaupið með nógu af geli en nú leit út fyrir að vöntun yrði á orku.

Var ca. 10 eftir start og gekk vel upp fyrstu brekkurnar og reyndi að missa ekki þá sem voru næst mér allt of langt frá mér. Það gekk ágætlega upp að snjó, þá fór ég að draga á þá en ég hafði einnig sett mér það markmið að reyna að hlaupa meira af brekkunum en ég hef gert hingað til. Snjórinn var harður og gekk vel að hlaupa í honum þannig að ég hljóp alla leiðina upp í sker og var í 7-8 sæti þar (ca. 1:06) Fékk mér banana áður en stefnan var sett á Álftavatn.

Leiðin þangað var með meiri snjó en ég hafði áður séð en það var bara betra, gilin voru nefninlega full og auðvelt að hlaupa yfir þau. Þarna var ég enn í sama hópnum og í sæti 10-15 eða svo. Fór varlega niður Jökultungurnar og reyndi að ganga þær í stórum skrefum í stað þess að hlaupa (aðferð sem Sigurjón og Stebbi kenndu mér í denn), þeir sem voru með mér hurfu mér sjónum enda brunuðu flestir á fullri ferð niður. Svo var bara að sjá hvort ég næði þeim fyrir Bláfjallakvísl en það hefur hingað til gengið eftir enda tekur verulega á að dúndra niður brekkuna og hægist oft á hlaupurum næstu 3-5 kílómetrana.

Skokkaði svo að Álftavatni (2.09) og var þá farið að teygjast vel úr hópnum. Þarna fór ég að finna fyrir smá orkuskorti en ákvað að geyma tvö gel þar til ég kæmi niður í Emstrur en eina gelið sem ég átti eftir yrði að duga út sandana. Tók stutt stopp og rauk af stað í átt að ánni en sá mér til undrunar að allur hópurinn sem hafði horfið mér sjónum í Jökultungunum var að fara yfir hana. Ég náði þeim því fyrr en ég átti von á. Ég hafði hinsvegar ekki orku til að gera neitt meira en að hanga í hópnum og náði að rúlla með honum að Bláfjallakvísl en þá fór ég að dragast aftur úr.

Ég varð því bara þreyttari eftir því sem leið á Sandana og var orðinn frekar hægur fyrir Emstrur en ég kom þangað ca. eftir 3:45. Þarna voru nokkrir búnir að ná mér og ljóst að fleiri myndu gera það í Emstrunum ef ég næði ekki orkunni upp. Fékk mér gel og banana í Emstrum og tölti af stað. Emstrurnar urðu bara ein eyðumerkurganga á sama orkulevelli allan tímann, náði aldrei að rífa mig upp í almennilegt hlaup en náði að halda ágætlega áfram (að mér fannst). Náði í fyrsta skipti að fara yfir Kápuna án þess að fá krampa sem ég var mjög sáttur við og rúllaði síðan þreyttur í mark á 5:49:43.

Móttökurnar á marksvæðinu voru til fyrirmyndar og svo var gott að fara í pottinn og ræða við aðra hlaupara. Klárt að það eru komnir margir góðir hlauparar fram á sjónarviðið sem spennandi verður að fylgjast með á næstu árum.

Jul 14, 2011

Hlaup og bólgueyðandi lyf

Fyrir þá sem eru aðdáendur íbúfen og bólgueyðandi lyfja þá eru hérna tvær góðar greinar eftir Andy J. Wilkins, en hann hefur meðal annars lokið WS100 á topp tíu 6 sinnum.

Hef sjálfur tekið íbúfen og slíkt í ultrahlaupum og lenti í ruglinu í WS100 í fyrra. Tek slíkt ekki aftur.....

Kidneys:

Acute renal failure 2004:

Laugavegur 2011

Kominn heim og farinn að hlakka til Laugavegsins, er ekki í neinu sérstöku formi en læt það samt ekkert aftra mér, dúndra bara á þetta að venju og svo verður bara að koma í ljós hvernig maður hefur það niður úr Emstrunum. Reikna með fjölda manns í sub 5:30 enda veðurspá hagstæð.

Ætla ekki að carbólóda, eða amk alveg að lágmarki og fara þetta bara á nokkrum gelum. Carbólódaði ekkert fyrir hlaupið í Noregi og náði að halda ágætisorkulevel á 5 gelum (í tæpa 7 tíma) svo ég ætla að testa þetta aftur. Munurinn á hlaupunum er þó sá að Laugavegurinn er mun hraðari og verður að koma í ljós hvernig það fer...!

Óska annars öllum góðrar bætingar og þeim sem eru að fara í sitt fyrsta hlaup góðs gengis, alltaf gaman að klára þetta hlaup!

KOMASO!

Jul 10, 2011

Hornindal rundt

Skellti mér í þetta hlaup með stuttum fyrirvara þar sem ég sá það auglýst á netinu stuttu áður en ég fór í sumarfrí. Þetta er bæði heilt og hálft hlaup þ.e. 37/75 km. Ákvað að taka bjartsýnina á þetta og skrá mig í 75 km en þar sem sem þetta hlaup var haldið vikuna fyrir Laugaveginn þá var ég ekki alveg viss um að það væri góð hugmynd að fara heilt, en það færi þó eftir leiðinni.

Leiðin reyndist mjög krefjandi og skemmtileg, í skóg og fjalllendi og hæsta fjallið var 1304m. Hún var vel merkt og ekkert vandamál að rata. Leiðirnar upp og niður fjöllin voru nokkuð brattar og stundum vel grýtt á niðurleiðinni að ekki sé minnst á bleytuna en oft þurfti að hlaupa yfir mýrafláka og hætti maður fljótt að hugsa um að fá ekkert í skónna því ekki var óalgengt að sökkva upp á miðja kálfa.

Eftir 4 tíma fór ég að fá krampa og ágerðust þeir bara í restina, þótt ég drykki vatn og fengi mér salttöflur, vel heitt var á svæðinu eða 20+ gráður og sól. Ákvað að láta hálft hlaup gott heita í ár en hef áhuga á að dúndra á heilt hlaup að ári. Seinni hlutinn á að vera "léttari" að mér skilst.

Allt í allt, snilldarhlaup og vel að verki staðið hjá fámennu sveitarfélagi hér í Noregi, mikill áhugi að fá fleiri hlaupara (voru 86 total) og líkur á að Norðmenn komi með sína bestu að ári.

Leiðin í 3D

Heimasíða hlaupsins

Jul 3, 2011

Meiðsli

Fór út að skokka seinnipartinn og ætlaði að ná 30 km, var í fínum gír og rúllaði +/- 5 tempó, alveg niður undir 4:30. Var heitara en ég bjóst við og kláraði fljótt vatnið sem ég var með. Á km 22 fann ég sársauka undir vinstri ilinni innanverða og uppgötvaði að það þarna voru komin gömul meiðsl, einhverskonar tognun eða slit í sin/vöðva sem liggur í stóru tánna, ekki neitt stórt en þeim mun meira pirrandi því það er varla hægt að hreyfa sig án þess að finna fyrir þessu. Ís og íbúfen verða að vinna á þessu....!

23 km lágu í dag á ca. 5: 15 meðaltempói.

Jul 2, 2011

Storfjellet & Tyven

Frá íbúðinni minni get ég hlaupið á tvö fjöll hér skammt frá, bæði eru 400m há en leiðin á Storfjellet er 5 km löng og á Tyven 7,5 km. Íbúðin er í 100m hys svo það er minni hækkun upp á Storfjellet sem er hér ofar í brekkunni, til að fara á Tyven þarf ég að hlaupa niður að sjávarmáli fyrst. Báðar leiðirnar eru skemmtilegar, þótt mér fynnist leiðin á Tyven skemmtilegri enda meira utanvegar og brött í restina og tekur vel á, hún er líka passlega löng eða 18 km á móti 10 km.

Skaust á Storfjellet áðan og náði að bæta tímann, var 26:41 á móti mínu gamla PB 28:00. Hef grun um að ég geti farið undir 25 mín strax eftir sumarfrí. Stefni hinsvegar á 42 mín á Tyven, en ég á um 47 mín núna.

Stefnt á að ná þessu fyrir 1. ágúst, 7, 9, 13!

18 km

Rúllaði mína klassísku 18 km upp á Tyven, hljóp nú erfiðasta hlutan næstum allann, enn smá snjór eftir. Á að klára þetta á mánudaginn, ef helgin verður ekki of erfið. Eftir æfingar síðustu helgar skellti ég mér á Storfjellet (5 km, 400m hátt), sami halli nánast alla leiðina og þá festust lærin í hálfgerðum krampa og varð ekkert úr þeirri bætingu sem ég ætlaði að ná.

Miðvikudag var ég að vinna frá 06:30 - 23:30 og upp 05:30 á fimmtudeginum þannig að það varð lítið um hlaupaafrek þá dagana. Vonandi verða færri heimsóknir frá Osló og viðskiptavinum næstu mánuðina því heilu dagarnir hverfa þar sem ávallt þarf að fara út að borða á kvöldin og komið seint heim, ágætt af og til en 2-3 dagar á viku síðustu misserin geta gert mann ansi þreyttan.

Jun 28, 2011

gírinn

Held að ég sé búinn að finna gírinn, búið að vera mikil vinna og stress í vetur/vor og endalaus yfirvinna. Auk þess hefur verið mikið um heimsóknir í vinnuna og þá er alltaf farið út að borða og komið heim um miðnætti. Nú er hinsvegar komið gott veður og hlaupin sett í forgang og hægt að velja allskyns fjallaleiðir til að hlaupa og þá er maður geim í hvað sem er.

Náði góðu hlaupi í gær á leið sem ég hljóp mikið í fyrra, góðar brekkur upp í 400m hæð og svo 10 km leið niður sem æfir vel lærvöðvana og hægt að dúndra á góðum hraða.

Í dag fór ég upp á Storfjellet, tæpir 10 km tur/retur en stífnaði ansi fljótt og varð því enginn mettúr þangað upp eins og ég taldi mig geta náð þegar ég var að græja mig.

Grill og smá hvíld í kvöld...!

Jun 9, 2011

Skokk

Búið að vera ansi mikið að gera undanfarið í vinnunni frá því í eftir Páska og lítið um hlaup en hef þó náð að taka nokkra spretti inn á milli og slatta af fjallgöngum. Hef hinsvegar verið latur að skrá það.

Gott veður í dag, hátt í 20 gráður og tók ég einn hring upp á Tyven (sem er á forsíðumyndinni) og veginn heim, 18 km á 1:50 eða svo. Ennþá snjór á veginum eftir kaldan maí mánuð en nú er spáð hátt í 20 gráðum um helgina svo það er bara að dúndra vel á æfingarnar + fjallgöngur. Brattasti hluti Tyven er ekki ennþá frír af snjó en þegar það verður reynt að hlaupa þangað upp í einum strekk.

Apr 14, 2011

Þreytt æfing

Eitthvað vantaði upp á stuðið í dag en náði tæpum 20 km en þá var líka öll orkan farin. Skreið heim og beint upp á flugvöll að ná í íslenskan starfsmann sem ætlar að vera hér í viku að vinna.

Enn nokkrir dagar í að fjallaleiðirnar opnist, prófa þær þegar ég kem heim eftir Páska.

Hlaup: 19.7 km

Apr 12, 2011

Nudd

Búinn að fara í þónokkra nuddtíma undanfarið og búinn að láta nuddarann níðast á vöðvum og sinum í lærum og kálfum og er það að skila góðum árangri . Þægilegur æfingahraði er nú í kringum 4:30-4.45 í stað 5:15 fyrir 2-3 vikum síðan.

Fjöldi nuddtíma hefur ekkert með það að gera að nuddarinn er mjög falleg lettnesk dama :)

Hlaup í dag: 15,7 km



Apr 11, 2011

Langt stopp

Skellti mér í frí til Kristiansand um daginn og hljóp aðeins þar enda fínt veður, sól og blíða. Hef síðan hlaupið lítið enda búið að vera mikið rót í vinnunni, fundir, breytingar og framleiðslustopp sem varð meðal annars til þess að ég þurfti að mæta fyrir 6 á laugardagsmorgunn í vinnuna og vinna til fjögur og svo aðra átta tíma törn á sunnudeginum. Vona að þetta sé frá og ég nái að æfa eitthvað af viti hér eftir.

11.7 km í kvöld, náði ágætis hraða inn á milli en var samt að reyna að halda jöfnu álagi. Formið er alveg nothæft....!

Mar 28, 2011

Glimmervannet

Það hefur snjóað duglega undanfarna daga og bærinn að fara í kaf og hef ég því skellt mér á gönguskíði í stað hlaupa og skellt inn á eyjunna hér en skíðasvæðið sér um að græja spor og fara gera þeir það daglega. Töluverð hækkun eða upp í 300m og svo er fínt brun heim.

Í gær gerði þétta hríð á leiðinni heim og átti ég í vandræðum að sjá slóðina enda white out í viðbót. Var með garmin við hendina svo ekki var hætta á að fara villur vegar.


Glimmervannet by borkura at Garmin Connect - Details

Mar 22, 2011

Af stað.....

Kominn í gang aftur eftir að "hné" vandræðin. Eða það hélt ég fyrst en þegar ég lá upp í sófa og var að nudda svæðið ofan og neðan við hnéð rakst ég í vöðvaþráð djúpt inn í ofanverðum kálfanum sem var vel aumur og hugsanlega rifinn eða í það minnsta illa bólginn. Þessi eymsli gerðu það að verkum að það var sárt að rétta úr hnénu en sársaukin kom hinsvegar fram fyrir ofan og aftan í hnénu og hélt ég að það væri frekar strekktu IT bandi að kenna.

Rúllaði þréttán kílómetra í góðu stuði þótt veðrið hefði mátt vera betra, stórhríð og vel hvasst á hluta leiðarinnar.

Mar 13, 2011

Skíði

Vinstra hnéið hefur ekki verið að gera sig undanfarið og ákvað ég að hlaupa lítið um helgina, bara 12 km í gær. Skellti ég mér hinsvegar tvisvar á gönguskíði í dag. Fyrst upp á fjöllin hér í kring á nýju cross country skíðunum. Fékk fljótt hælsæri enda ekki notað skónna lengi svo ég snéri við eftir 3 km þ.e. total 6 km. Í kvöld fór ég svo í gönguskíðabrautina og kláraði sirka 10 km. Fínt veður og verða skíðin klárlega á dagskránni næstu vikurnar.

Mar 9, 2011

Sund

Skellti mér í sund í fyrsta skipti í marga mánuði og var það klárlega það sem vantaði. Kláraði heila 200m! Mikið klór var í lauginni og gleymdi ég sundgleraugunum. Stefni á heila 500m næst :)

Hlaup í dag

16 km, rólegt, mjög mikil hálka en náði að dúndra niður fyrir 3:50 þar sem gangstéttir voru auðar.

Mar 8, 2011

Kvef

Eftir býsna kalt veður frá miðjum desember var ég að vonast til að ná góðum æfingum þegar hitastigið nálgaðist núllið, það entist stutt, kvefaðist fyrir helgi og fékk þar að auki bólgur í vöðvafestingar fyrir neðan hægra hné eftir 32 km hlaup um daginn en ég notaði sko sem voru ekki alveg neutral (held amk að það sé orsökin). En vonandi kemst ég af stað á morgunn, kvefið er ekki stórvægilegt, bara akkúrat þannig að maður telur sig eiga frekar að vera inni en úti að hlaupa!

KOMASO!

Mar 5, 2011

TransGranCanaria

Saga og Sigrún tilbúnar í 43 km

Þá ættu 123 km hlaupararnir að vera farnir af stað. Ekki er enn kominn hlekkur á tíma á stöðvum svo ég hendi mér í rúmið og kíki frekar á þau snemma í fyrramálið og fylgist með fram eftir degi.

Á síðu hlaupsins þar sem tímarnir eiga að birtast er ekkert að gerast nú klukkan að verða níu.

En fregnir að utan (kl: 07:00) voru að Siggi var búinn með 43 km, Fríða með 36 km og Jói var síðan að koma inn á Tunte stöðina (km 42) fyrir stutt.

Var að fá fréttir um að nóttin hefði verið frekar erfið, mikil rigning í ca. 2 tíma og kalt. Helga Þóra er nú komin á km 46 og síðast fréttist af Christine og Maríu þar sem þær hurfu út í nóttina á miklum hraða.

Mynd af Sigga og Jóa á Facebook

kl: 10:15 var Siggi kominn í 61 km og Helga Þóra 55 km, úrslitasíðan ekki enn komin í gagnið svo það er bara treyst á stopul SMS.

Klukkan 10:57 að íslenskum tíma var Jói kominn 57 km og kl. 10:00 var Fríða komin 54 km.

Var að fá skilaboð núna kl: 12:00: Jói á km 62 og hálfnaður með hlaupið, Christine og María á undan og Fríða/Helga á eftir. Anna Sigríður er líklega á undan líka.

Saga og Sigrún eru líka í góðum gír, sólin farin og orðið skýjað og þægilegt.

Fríða og Helga nú hálfnaðar

Fékk SMS frá Sigga, var kominn á km 78 og var dálítið þreyttur, líklega tekur hádagurinn vel í enda vel heitt þarna.

Zigor Iturrieta, vann víst TGC 123 km á 13 tímum, 20 mínútum, annar varð Nemeth Csaba og þriðji Sebastian Chaigneau. Ruglaði saman áðan hlaupurum úr 96 km hlaupinu.

Helga Þóra um mitt hlaup:


Saga hringdi og átti 7 km eftir af 43,7, var í fínum málum en það hefur ringt dálítið og seinni hluti hlaupsins er erfiðari en sá fyrri.

Saga farin að sjá "heim" þ.e. Las Palmas.


Sigrún og Saga kláruðu hlaupið á ca. 8:30 til 9:30, hef ekki fengið nákvæmari tíma ennþá.

Kominn aftur, skrapp aðeins frá í heimsókn!

kl: 22:00 átti Jói 25 km eftir og Fríða/Helga Þóra voru þar skammt á eftir eða að detta í 100 km. Gríðarleg rigning hefur verið að angra þau síðustu klukkutíma en vonandi að það stytti upp síðustu kílómetrana.

Grein um Íslendingana á fréttasíðu Kanarí eyja (nú með réttum tengli!)

Nú klukkan 23:30 var Helga að ná Jóa og líklegt að þau fylgist eitthvað að í rigningunni og myrkrinu. Hef ekkert frétt að hlaupurunum frá Grindavík.

Siggi var að klára að sögn erfiðasta hlaup sem hann hefur tekið þátt í, var tæplega 24 tíma. Mikil rigning og drulla síðustu 50 kílómetrana eða svo gerði hlaupurum erfitt fyrir.

Elísabet varð fjórða konan í 24 km hlaupinu og fyrsta í sínum aldursflokki. Glæsilegt hjá henni.

Christine, Anna Sigríður og María frá Grindavík eru líklega í kringum km 110 eða svo.

Greinilegt að hlaupahaldarar vita vel af ástandinu upp í fjöllunum þar sem rigning, kuldi og þreyta hrjáir nú hlauparana og bíða þeir nú eftir að þeir skili sér niður þ.e. þeir sem ekki hafa hætt vegna aðstæðnanna.

Þá eru Helga Þóra og Jói mætt, á 28:xx tímum. Glæsilegt hjá þeim að ljúka sínu fyrsta 100 km+ hlaupi við þessar erfiðu aðstæður sem voru í lokin. Hef ennþá ekki heyrt hvernig þetta endaði hjá hinum þ.e. Fríðu, Christine, Maríu og Önnu Sigríði.

Síðustu fréttir eru þær að Christine, María og Anna Sigríður og Helga kláruðu saman á ca. 29 tímum en Fríða hætti eftir 100 km.

Úrslitin ekki komin á netið ennþá svo ég veit ekki hvernig öðrum gekk sem voru í 24/42 km hlaupunum fyrir utan Sögu/Sigrúnu/Elísabetu.

P.s. ef einhver nennir að henda inn kommenti þá væri það vel þegið bara til að vita að kommenta kerfið virkar :)

Mar 4, 2011

Rásnúmer

Hér eru rásnúmerin hjá keppendum, þegar "live" síðan hjá hlaupahöldurum er komin í gagnið hendi ég inn tenglinum

123 km :
Fríða (Arnfríður) : 147
Siggi : 0146
Jói : 0256
Anna Sigga : 257
Helga Þóra : 143
Christine : 44
María : 142

43,7 km.
Sigrún : 2035
Saga : 2036
Bibba : 2043

24 km.
Adda : 3034
Biggi : 3245
Sólveig : 3239
Ester : 3241
María Eir : 3258
Elísabet : 3260

TransGranCanaria 2011


Nú á miðnætti leggja fyrstu hlauparar af stað í TransGranCanaria hlaupinu en í kringum 15 hlauparar taka þátt í mislöngum vegalengdum, frá 24 km til 123 km.

Athygli vekur að margir hlauparanna koma frá Grindavík og eiga þau hrós skilið fyrir góða þátttöku.

Heimasíða hlaupsins