Jan 17, 2012

Púls

Hef verið að æfa síðan seint í nóvember eftir Maffetone aðferðinni svokölluðu, þ.e. æfa eftir formúlunni 180-aldur í púls þ.e. 141 fyrir mig og 10 slög niðurá við þ.e. æfa á bilinu 131-141 í púls. Þessi aðferð á að auka úthald (endurance) og heyri ég þríþrautarfólk t.d tala mikið um þessa aðferð á podcastinu.

Var fyrst frekar erfitt að halda sig neðan við þetta þar sem þetta þýddi að ég þurfti að hlaupa mun hægar er ég var vanur að gera. Eftir nokkur skipti var ég farinn að læra á mig og passaði að gefa vel eftir í brekkunum, jafnvel ganga þær. Allt varð smátt og smátt betra og gat ég hlaupið hraðar á æfingunum rétt fyrir jól. Tók það með ró um jólin og en þegar ég ætlaði að fara að setja æfingarnar í gang aftur milli jóla og nýárs var allt stopp, púlsinn upp í rjáfur og vart hægt að hlaupa hraðar en maður gengur í búðarrápi. Æfingarnar urðu afskaplega leiðinlegar og stytti ég þær enda þurfti ég oft að ganga á jafnsléttu til að ná púlsinum niður. Þetta hélt svo áfram í janúar og var ekkert að breytast.

Ákvað að prófa brettið í gær því þar er auðveldara að stýra púlsinum. Það varð þó ekki ferð til fjárs því púlsinn bara steig og ég þurfti að minnka hraðan til að halda mér innan marka, var á endanum kominn niður í 9,7-9,8 í hraða sem er bara upphitunarhraði. Í gær notaði ég Polar púlsmælinn í staðinn fyrir Garmin, var farinn að gruna að Garmin væri orðinn bilaður.

Í dag varð annað hinsvegar breyting, fann strax og ég lagði af stað að nú var annað upp á teningnum, og þegar ég leit á púlsmælinn eftir 100m var hann stöðugur í kringum 115 (niður brekku), á jafnsléttunni tók langan tíma að koma mér upp fyrir 131 í púls og þegar ég sló upp í 141 var ég fljótur niður fyrir aftur. Gat því hlaupið þessa æfingu nokkuð skammlaust og á ágætum hraða, eini mínusinn var að eftir hnébeygjur og framstig helgarinnar var ég með svo mikla strengi að ég óskaði þess að púlsinn hefðir beðið aðeins með það að lagast, þó það hefði ekki verið nema fram á morgunn daginn :)

Í desember var ég að hlaupa á 141 púls á ca. 5.40, sýndist ég vera um 5:30 pace í dag á sama púls þannig að það er kannski smá bæting komin þrátt fyrir leiðindi undanfarinna vikna.

No comments:

Post a Comment