Sep 19, 2011

Champex til Trient

Labbaði í gegnum bæinn og var hálfdasaður fyrstu km enda enginn hlaupari nærri og ég datt inn í minn eigin heim og tókst að villast aðeins þegar ég labbaði upp malarveg í stað þess að halda áfram meðfram malbikuðum veginum sem ég gekk á til að byrja með. Bílar keyrðu framhjá og flautuðu og þá grunaði mig að ég var ekki á réttri leið sem og var. Snéri við og hélt rétta leið út í myrkrið.
Leiðin var létt til að byrja með og allt benti í þá átt að leiðin til Trient bein og greið, einhvern veginn hafði ég bitið það í mig líka á föstudeginum þegar fréttist að CCC hlaupinu hefði verið breytt að farið yrði fyrir fjallið en ekki yfir það. Það sem hinsvegar lá í vændum eftir nokkur hundruð metra var eitthvað sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér að hægt væri að bæta inn í 100 mílna hlaup.

Náði tveimur hlaupurum eftir 3-4 km og hlupum við saman að hliði sem var merkt með endurskinsmerki. Eftir að hafa farið framhjá því byrjuðum við að hlaupa niður á móti sem var kannski ekki svo óvænt. Leiðin varð hinsvegar bara brattari og brattari og oft á tíðum flughál enda hlíðin sem við vorum að fara niður grasi vaxinn. Þetta hélt svo bara áfram og áfram þar til við fórum að hlaupa niður í gegnum zik zak veg, þ.e. í stað þess að hlaupa veginn og taka straujuðum við stystu leið í gegnum beygjurnar sem þýddi þá einnig mun brattari leið. Ekki leið á löngu þar hvína fór í lærunum og ekki síður fór heilinn á fullt að reyna að vinna úr öllum upplýsingum sem ég hafði fengið fyrr um daginn um breytingarnar á leiðinni en hann fann ekkert sem gæti skýrt þess þeysireið lóðrétt niður einhverja f...... hlíð. Svona hélt þetta áfram lengi vel og fór ég að tína upp hlaupara sem voru að klára lærin sín og gátu ekki haldið sama hraða áfram. Það var farið að fjúka all verulega í mig þegar neðar dró, hafði ekki búist við þessu og nú var ég kominn í eitthvert allt annað hlaup en lagði uppí 25 tímum fyrr. Einhver hlauparinn hafði mælt lækkunina 1000-1200m. Kom á endanum niður í einhvern bæ og hélt að það væri Martigny sem átti að vera drykkjarstöð. Hljóp um göturnar með 3 öðrum hlaupurum og á leiðinn varð á okkar vegi bar einn sem bauð upp á vatn á borði út á götu. Stoppuðum þar og frakkarnir í hópnum spurðu til vegar og það sem mér fannst ég heyra var að það væru 30 mín yfir í Martigny. Gott og vel, get sætt mig við það eftir það sem á undan er gengið, þaðan hlyti svo að vera stutt yfir í Trient hugsaði ég. Hlupum svo áfram eftir götunum niður í botn dalsins og byrjuðum svo að fikra okkur upp eftir enn einum zik zak veginum og lá hann í gegnum vínrækt (að ég held) og vínberjaklasar á runnunum beggja vegna vegarins.

Þessi ganga varð fljótt afskaplega einsleit, rölt upp malbikaðan veg um miðja nótt og umhverfið allt það sama, svefnin sótti á og af og til varð ég reikull í spori, bláu vínberjaklasarnari breyttust í leðurblökur þar sem þær héngu á hvolfi og horfðu stórum augum á mann. Síðan hrökk ég upp úr mókinu og áttaði á mig að þetta væri nú bara vínber, engar leðurblökur eða aðrir óvættir. Stuttu seinna fórum við út af veginum og byrjuðum að ganga eftir skógarstíg sem engan enda virtist ætla að taka. Þegar ofar dró fór ég að fá stingi ofarlega í hamstringin og var það svo sárt að mér leist ekkert á, komu þeir með reglulegu millibili í bæði lærin án þess að ég væri að reyna eitthvað sérstaklega á mig.

Við vorum nú orðnir ca. 8 talsins hlaupararnir sem vorum í hóp og vorum við allir jafn rammvilltir, sáum bæ langt fyrir neðan okkur en vissum ekkert hvort þetta var Trient eða Martigny eða einhver allt annar bær. Rakst þarna á Roch Horton (USA) sem hefur klárað Hardrock100 tíu sinnum sem er almennt talið erfiðasta 100 mílna hlaupið en þarna var hann búinn að klára sig, his quads were shot eins og hann orðaði það. Við héldum áfram dágóða stund eftir skógarstígnum og vorum enn hátt fyrir ofan bæinn. Loksins fór stígurinn að liggja niður á við og eftir skammastund komum við niður í Martigny stöðina (26:36:23, 165 sæti) og eftir tvö kókglös hélt ég áfram með hópnum. Nú var orðið svalt svo ég fór í jakkann og missti hina frá mér við meðan ég var að klæða mig í hann. Svo labbaði ég af stað og náði þeim fljótt, leiðin lá nú beint upp bæinn eftir malbikaðri götu sem var áreiðanlega brattari en ESB staðlar leyfðu og grillaðist ég fljótt svo aftur mátti ég stoppa og nú fara úr jakkanum. Þessi stopp til að fara úr og í jakkann í þessari keppni voru orðin fleiri en ég hafði tölur á. Náði fljótt að ná hópnum sem ég hafði misst langt fram úr mér og fór síðan fram úr honum. Hittum nokkra stráka sem stóðu við borð fyrir utan eitt húsana og buðu upp á vatn. Skv. þeim var eins tíma klifur upp á Col de Forclaz.

Varð nú ekkert of glaður við að heyra þetta enda þá þegar búinn að ganga í hálftíma upp þessa brekku, klukkutími til þýddi að hækkunin væri nálægt 1000 metrum. Varð enn og aftur hugsað til Jóa og léttu skógarstíganna hans og var farinn að stórefast um að á þann mann væri treystandi í framtíðinni. Það góða var að Col de Forclaz var á gömlu leiðinni og nú vorum við á leið inn á hana aftur eftir þennan ótrúlega útúr dúr sem við höfðum tekið. Setti nú undir mig hausinn og þrumaði upp brekkuna og fljótlega stungum ég og einn frakkinn hina af og gengum nánast viðstöðulaust upp brekkuna. Þegar ofar dró byrjuðu öndunarerfiðleikarnir að vanda en ég reyndi að láta það hafa sem minnst áhrif á mig. Hinsvegar fór ég að fá stingina í hamstringin aftur og var ég farinn að hafa áhyggur af því enda aldrei upplifað það áður. Reyndi að forðast öll óvænt átök á hann til að forðast það að togna. Af og til fékk ég hóstaköst en nú var um að ræða þurran hósta, var greinilega búinn að hósta upp öllu slími. Fór því að hafa minni áhyggjur af því að ég væri að verða veikur. Fljótlega fór ég að heyra annan hlaupara nálgast og þótt hann hóstaði einnig mikið náði hann að ganga án stoppa og náði mér fljótt. Ég missti þá tvo svo frá mér eftst í brekkunni þegar ég þurfti að stoppa á ca. 20 skrefa fresti.

Svefnleysið var alveg að gera út af við mig efst í brekkunni og þegar ég sá ljós efst þá hélt ég að það væri einhverskonar drykkjarstöð þar, var harðákveðinn í því að finna mér stól þar og setjast í hann og sofna í 5-10 mín. Þegar ég kom hinsvegar þangað upp reyndust þetta bara vera bílljós og því ekkert hægt að stoppa þarna. Bót í máli var að vegvísir sem þarna var sagði að 30 mín væru niður í Trient (gangandi) svo það yrðu ekki nema 10-15 hlaupandi. Reyndi að hlaupa eins og ég gat en lærin voru orðin ansi straujuð eftir ævintýri síðustu klukkustunda svo engin heimsmet voru sett á leiðinni niður í Trient (140 km, 29:07:05, 153 sæti). Kom þangað verulega þreyttur og slæptur og fékk mér kók og súpu. Stóð síðan upp og rölti yfir í sjúkrastofuna til að fá nudd á hægri fótinn en ég hafði hlíft vinstri fætinum allt hlaupið og var sá hægri orðinn vel snúinn og stirrður. Þegar ég kom heim sá ég að ég hafði gert gat á hælinn á báðum hægri sokkunum á þeim tveimur pörum ég notaði í hlaupinu og voru þau bæði ný og ég hef aldrei gert gat á sokkana mína á mínum hlaupaferli. Hafði greinilega notaði hægri fótinn til að bremsa niður öll fjöllin til hlífa þeim vinstri.

Í nuddinu steinsofnaði ég og fékk svo að sofa í ca. 20 mínútur í viðbót áður en ég græjaði mig af stað fyrir loka áfangan, yfir síðasta fjallið og heim, og það var ekki spurning um að dröslast heim, nú var undirbúningur hafinn fyrir að geta hlaupið síðasta áfangan með stæl og koma á fleygiferð í mark. En fyrst þyrfti ég að klöngrast yfir eitt fjall til!

3 comments:

  1. Shit, hvað þetta er að verða spennandi. Þetta er eiginlega eins og að horfa á bíómynd eftir að hafa lesið bókina - þótt ég viti hvernig endirinn var er ég samt ógó spennt, sko! Skyldi hann hafa náð að klára? Á hvaða tíma skyldi hann hafa endað? Í hvaða sæti lenti hann? Drífa sig að koma með endasprettinn!!!

    ReplyDelete
  2. Vertu róleg maður :)

    Það tók 35 tíma að hlaupa þetta svo það kemur ekki til með að taka styttri tíma að skrifa söguna :)

    ReplyDelete
  3. Vá hvað þetta er lifandi frásögn hjá þér og þvílíkur berserkur ertu.. þruma og dúndra upp fjöll :) hljómar súrealístiskt .. bíð spennt eftir endasprettinum..

    ReplyDelete