Sep 18, 2011

Gran col Ferret til Champex

Fyrir framan mig blasti Ferret dalurinn í öllu sínu veldi, þótt fallegt væri um að litast skyggði á að framundan var sá hluti leiðarinn sem mig hlakkaði minnst til að hlaupa, þ.e. niður í La Fouly. Ástæðan var einföld, niðurleiðin er löng og kræklótt og þarna byrja lærin að verða aum og síðasti parturinn niður í dalinn er frekar brattur og tekur vel á. Reyndi að hlaupa þetta eins varlega og ég gat en var samt orðinn töluvert þreyttur þegar ég kom hljóp yfir brúnna í botni dalsins og yfir á hægri hluta dalsins. Byrjaði að hlaupa niður veginn í átt að La fouly og sá þá merki fyrir hlaupaleiðina á girðingu þar sem ca. 50 beljur voru fyrir innan. Fannst það skrýtið og fór eitthvað að horfa lengra upp hlíðina þegar ég sé að þar eru hlaupararar langt upp í hlíðinni. Mundi þá eftir breytingu sem gerð hafði verið á leiðinni í ár þannig að í stað þess að hlaupa niður veginn þá var okkur beint upp í fjall og þaðan niður í bæinn. Var ekki að nenna þessu auka klifri bara til þess að taka auka 3-400 metra lækkun í viðbót á lærin. Leiðin lá í gegnum beljuhópinn og stóðu flestar á stígnum sem lá þar í gegn svo eftir smá zik zak hófst klifrið upp hlíðina sem var ekki eins svakalegt og það virtist frá veginum séð. Síðan var hlaupið eftir malarvegi sem lá zik zak niður í La Fouly (110 km, 19:44:39, 194 sæti). Þarna fór ég að verða verulega aumur í lærunum og labbaði af og til nokkra metra.

Var feginn þegar ég kom niður í stöðina og fyllti á alla brúsa að vanda og fékk mér kók. Leit yfir matarborðið en hafði ekki lyst á neinu öðru en smá súpu, kroppurinn hafði næga orku ennþá og var greinilega ekki í neinni þörf fyrir meira. Þarna gerði ég þau mistök að setjast niður, átti bara að skella súpunni í mig og fara út. Eftir að hafa setið smá stund kom sú ástralska og settist hjá mér, hún var mjög öflug í hlaupa niður brekkurnar svo það kom mér ekki á óvart að hún hefði náð mér. Sagði henni að ég hefði fengið fregnir af því að leiðinni eftir Champex yrði breytt, en líka fengið að að vita frá Jóa sem hafði farið þess leið nóttina áður í CCC hlaupinu að þetta væri «fínn skógarstígur» sem hlaupin yrði í staðinn fyrir að fara yfir fjallið Bovine, 2000m hátt. Það hljómaði bara vel, en ég átti eftir að hugsa margar slæmar hugsanir til Jóa og skógarstígsins nokkrum klukkutímum síðar!

Eftir alltof langt stopp stóðum við upp og fórum út fyrir. Áttaði mig ekki á því að það var komið kvöld og sólin var nú farin og um leið hafði hitastigið fallið niður í kannski 5 gráður og sló allsvakalega að mér þegar ég kom út úr stöðinni og mátti ég stoppa og fara í jakkann til að ná upp hita. Var hálfdruslulegur þar sem við gengum eftir veginum að slóða sem liggur niður að brú en næsti hluti liggur meðfram ánni vinstrameginn í dalnum. Um leið og við beygðum niður slóðan fann ég að ég var að skána og skokkaði rólega niður að brúnni en gekk yfir hana. Þegar yfir var komið þá snarbreyttist líðanin og ég fór að hlaupa hraðar og hraðar og endanum var ég kominn á flug á stígnum meðfram ánni. Varð strax alltof heitt svo ég stoppaði til að fara úr stakknum en dúndraði svo af stað. Hlaupaleiðin þarna meðfram ánni er fjölbreytileg og mjög skemmtileg og hef ég alltaf hlaupið hana mjög hratt í fyrri hlaupum. Það sem ýtti við mér líka var að myrkrið var að skella á og mig langaði til komast niður í Praz de-Fort án þess að þurfa að taka upp ennisljósið. Náði því og hljóp að mestu að uppgöngunni upp í Champex en þá var komið kolniðarmyrkur svo ég tók upp ennisljósið.

Vissi frá fyrri hlaupum að ég hafði verið ca. hálftíma upp í Champex og ætlaði að ná því líka núna. Öndunin fór hinsvegar strax í rugl og byrjaði ég að hósta allskyns drasli upp úr lungunum. Hóstinn ágerðist bara eftir því sem ofar dró og leist mér ekki alveg nógu vel á stöðuna, vissi að ég hafði náð mér í smá hálsbólgu fyrir hlaupið en nú var spurningin hvort það væri breytast yfir í veikindi sem gætu sett strik í reikningin hvað framhaldið varðaði.

Aðstæðurnar fra starti höfðu hreinlega boðið upp á veikindi enda búið að vera rigning, snjór, heitt og ískalt til skiptis, úr og í jakkann eftir hitastigi. Síðustu metrarnir upp í Champex (124 km, 22:26.54, 163 sæti) voru jafnerfiðir og í fyrra og kom ég hóstandi inn á stöðina og þar tók ég eitt gott hóstakast til og varð ískalt um leið og ég stoppaði. Þessi hósti pirraði mig verulega, það sem pirraði mig samt meira var að ég vissi ekki hvort ég væri að veikjast og hvernig ég ætti að haga mínu hlaupi héreftir. Vissi að ég var á leið niður undir topp 100 með sama áframhaldi en ef mér versnaði þýddi það stopp einhversstaðar á leiðinni. Það voru jú 10 tímar þar til ég næði til Champex og stærstur hlutinn um nótt í köldu veðri. Ákvað að taka öruggu leiðina á þetta og klára hlaupið frekar en að eltast við sæti. Eftir að hafa fengið mér kók, ákvað ég að fara inn í svefntjaldið og ná smá yl í mig, ef ég gæti sofnað í 10 mín þá væri það plús, var samt ekki svefnþurfi. Þegar ég lagðist undir teppið fór ég að skjálfa óstjórnlega og varð á endanum að ná í fleiri teppi og samt alveg að krókna og tók 20 mín að losna við skjáltann, eftir það lá ég í 10 mín áður en ég stóð upp. Leið nú betur en ákvað fá smá nudd á sára lærvöðvana áður en ég héldi af stað. Fékk bæði nudd á læri og hamstring og voru dömurnar sérstaklega uppteknar af hamstringinum og gerðu allskyns test meðan þau héldu við hann efst. Fannst þetta bara áhugavert allt saman en hugsaði ekki meira út í það, enda var hamstringinn ekkert að angra mig, en það átti þó eftir að breytast.

Eftir nuddið hélt ég yfir í matartjaldið aftur kíkja á töfluna þar sem ég hafði séð upplýsingar um breytingarnar á leiðinni, þar stóð Champex – Trient, 14 km, 700m heildarhækkun. Það hljómaði bara vel og stemmdi við þennan «fína skógarstíg» sem Jói hafði talað um. Varð nú í fyrsta skipti svangur og ákvað að fá mér pasta áður en ég héldi af stað og gat nú klárað af disknum. Þegar ég var á leiðinni út þá mundi ég eftir bláberjabökunni sem einkenni þeirra Champex manna, hef alltaf fengið mér hana hér og því kom ekki annað til greina en að halda í hefðina. Rölti svo út og sá á klukkunni að hún var að nálgast miðnætti.

No comments:

Post a Comment