Sep 17, 2011

Til Courmayeur

Kom niður í Les Chapieux (50 km, 08:02:06, 452 sæti) í ágætis standi og stoppaði stutt þar, fór úr jakkanum og fór í hlaupavestið sem ég hafði tekið með mér þar sem mig grunaði að veðrið yrði oft þannig að það væri of heitt til að vera í jakka en of kalt til að vera á bolnum. Reyndist það vel auk þess reyndist það einnig plús þegar kaldast var og þá veitti ekki af auka lagi á milli bols og jakka. Strax eftir stöðinna er malbikaður vegur sem ég ætlaði að hlaupa eins og ég gæti en hallinn á honum er þannig að hann er eiginlega of erfiður til að hlaupa en of léttur til að labba. Tókst það ekki of vel og endaði ég á því að labba mestan hluta leiðarinnar að uppgöngunni til Col de la Seigne, 2516m. Fljótlega byrjaði að snjóa á okkur en ekkert alvarlegt, bara jólasnjórinn aðeins fyrr á ferðinni.

Á leiðinni upp fór ég að finna fyrir öndunarerfiðleikum og fannst það skrýtið þar sem hæðinn hafði aldrei haft áhrif á mig áður, í stað þess að geta gengið stanslaust eins og áður þá varð ég að stoppa eftir 20 skref eða svo þegar verst var. Náði samt að halda ágætlega áfram en fór síðan að gruna að þetta hefði eitthvað með kvefið að gera sem ég náði mér í fyrir hlaupið. Uppi á Col de la Seigne (60 km, 10:12:31, 417 sæti) var útsýnið stórkostlegt. Fjöllin hvít niður í ca. 1800m og þarna saknaði ég myndavélarinnar sem ég hafði ákveðið að skilja eftir heima vegna rigningarinnar. Eftir smá stopp hélt ég niður til Lac Combal en þangað er aðeins minna fall en frá Col du Bonhomme eða rúmir 500m eftir djúpum göngustígum. Lac Combal (65 km, 10:42:27, 380 sæti) stöðin er bara 2-3 tjöld og tók það mig hálftíma að hlaupa þangað niður og eftir örstopp þar hélt ég út á malarveginn í átt að Arete du Mont-Favre, 2435m. Þarna tók ég einn eitt pissustoppið og það var númer 15 frá starti (hafði fátt annað að gera fyrstu tímana en að telja pissustoppin :) )

Nú vel stemmdur fyrir síðasta legginn til Courmayeur. Veðrið var orðið býsna gott og hitinn á leið upp, og náði ég hlaupa nánast allan malarveginn að uppgöngunni að fjallinu en tók líka eftir því að það var enginn annar að hlaupa svo mig grunaði að ég væri að potast framar eftir lélegt start (að ég hélt). Síðasti hlutinn upp á Mont-Favre var erfiður, öndunin leyfði bara nokkur skref í einu og var ég farinn að hafa áhyggjur af því að þetta væri að versna. Þess utan pirraði þetta mig mikið því mér leið að öðru leyti vel. Náði toppnum rétt fyrir hádegi (69 km, 11:37:44, 332 sæti) og þaðan niður í Courmayeur er einn skemmtilegasti hluti leiðarinnar, 1235m lækkun á 9 km. Fann að lærin voru í ágætis standi og gekk ágætlega að hlaupa niður en reyndi samt að fara varlega og fóru nokkrir framúr mér. Hálftíma síðar var ég kominn niður í Col Checrouit (73 km, 12:16:12, 336 km) og eftir smá kókstopp þá hélt ég niður einn brattasta hluta leiðarinn sem tekur alltaf vel í og endar á bröttum malbikuðum stíg. Kom niður í Courmayeur (78 km, 12:56:07, 331 sæti) og eftir að hafa tekið pokann minn hljóp ég inn í íþróttahúsið og byrjaði að græja mig. Fór í nýja sokka og ákvað að halda áfram í sömu skónnum, ætlaði að bæta á gelið en sá að ég hafði varla snert það sem ég var með á brúsanum svo ég lokaði pokanum og rölti eftir pasta en ég hafði ekkert borðað fyrir utan tvær súpuskálar og kók. Settist með pastað og eftir að hafa hreyft við nokkrum pastaskrúfum henti ég restinni.

No comments:

Post a Comment