Vaknaði klukkan 10:30 á föstudeginum í staðinn fyrir 05:00 eins og alla aðra morgna og náði því að innheimta örlítið af útistandandi svefni. Mínusinn var sá að ég missti af því þegar Siggi og Elísabet komu í mark sem ég ætlaði alls ekki að missa af.
Fékk fljótlega að vita að startinu hefði verið seinkað, ekki kannski óvænt því dagana á undan hafði veðurspáin breyst til hins verra og spáði t.d. niður í 5 gráður á laugardeginum niður í byggð og blautu veðri. Það var því ljóst að startið yrði svipað og 2010, í rigningu.
Planið hjá mér áður en hlaupinu var seinkað var að komast í mark áður en síðasta barnum yrði lokað eða rétt eftir miðnætti á laugardeginum, fannst það ágætis markmið. Við seinkunina varð þetta markmið að engu og þess utan gerði veðurspáin það að verkum að planið breyttist í að klára hlaupið til að fá þá 4 punkta sem gæfu mér þátttökurétt að ári (sem reyndist síðan vera misskilningur því ég gat nýtt þá 4 punkta sem ég fékk 2009).
Leið dagurinn í að taka á móti TDS hlaupurum sem var virkilega gaman, og þá sérstaklega að taka á móti Siggu sem var í fyrsta sinn að taka þátt í svona löngu hlaupi og kláraði það óþreytt að því er virtist. Seinnipartur dagsins fór í allt annað en að slappa af, varð mjög þreyttur um kaffileytið en í stað þess að henda mér í rúmið þá fékk ég mér kaffi. Um sexleytið um kvöldið fékk ég hausverk en þar sem ég hafði ákveðið að taka ekki verkjalyf fyrir eða í hlaupinu þá gekk illa að losna við hann. Hélt að hann tengdist vatnsskorti eftir hita síðustu daga en fékk mér vel af vatni.
Eftir að hafa legið í rúminu fram til 10 um kvöldið fór ég á fætur og fór að græja það síðasta fyrir hlaupið. Ennþá var ég með slæman hausverk og en ákvað að fara út að startsvæðinu með Ásgeiri, þar var enginn mættur rúmlega klukkutíma fyrir hlaupið enda þónokkur rigning. Við löbbuðum því til baka í íbúðina og þar fékk ég mér tvær paracetamól og bleksterkt kaffi. Hálftíma síðar röltum við að startinu og þá hafði allt fyllst og við stilltum okkur upp aftarlega í hópnum. Var ekki í neinu stuði þar sem ég stóð klæddur í utanyfirjakka og hrollkalt. Varð hugsað til startsins 2010 og hvernig það hlaup fór, nú var veðurspáin verri og mun kaldara. Erfitt að rífa upp móralinn við þessar aðstæður, var nánast öruggur um að hlaupið yrði stoppað einhversstaðar á fyrri helming hlaupsins. Þegar hafði leiðinni verið breytt og síðasta fjallið tekið út.
En síðan var talið niður að startinu og þá var ekki um annað að gera en að setja hausinn undir sig og leggja í´ann.
No comments:
Post a Comment