Sep 13, 2011

UTMB 2011 – Undirbúningur

Vorið hafði ekki verið æfingunum í hag, mikil vinna og vesen gerði það að verkum að æfingarnar sátu á hakanum en náði að starta mér almennilega í lok júní. Hafði svo skráð mig í 70 km hlaup í Noregi aðra helgina í júlí, aðallega vegna þess að ég var búinn að ákveða að taka sumarfrí á svæðinu þar sem hlaupið var haldið. Hlaupið var hraðara og leiðin brattari upp og niður en ég hafði átt von á en þrælskemmtilegt. Ákvað þó að nóg væri komið eftir 38 km (6.40:00) enda Laugavegurinn helgina eftir. Hljóp Laugaveginn á 6:49:xx sem var svona ca. það sem ég stefndi á, vonaðist þó til að ná niðurundir 6:40:xx.

Var nokkur sáttur með formið eftir Laugaveginn, náði að hlaupa flestar brekkur svo ég hóf æfingar fyrir UTMB af krafti vikuna á eftir. Náði síðan nokkrum góðum vikum í kringum 130 km og nánast allt upp í fjöllum. 15-45 km æfingar. Lenti í smá bakslagi um miðjan ágúst þegar ég hljóp upp bratta brekku og þá var eins og lærin hefðu gefið eftir og varð ég mun verri í brekkum dagana á eftir, púlsinn varð auk þess hærri. Hægði því aðeins á og ákvað að byrja að slaka á fyrir hlaupið enda fáu hægt að bjarga á síðustu dögunum.

Þótt ég hefði óskað þess að hafa náð að æfa meir í maí og júní var ég bara ágætlega sáttur við formið eftir þessar æfingavikur.

Var mun sterkari en áður upp brekkurnar, eitthvað sem ég hafði orðið var við í Laugaveginum og hlaupinu í Noregi. Hafði smá áhyggjur af niðurhlaupunum en ég hafði ekki lagt jafnmikla áherslu á þau áður.

Flestar æfingar hljóp ég á Nike Zoom Vomero skóm sem eru mjúkir götuskór, aðallega vegna þess að ég þurfti að hlaupa smá á malbiki áður en komst inn á slóðana og einnig vegna þess að slóðarnir voru ekki það erfiðir að þörf væri á utanvegaskóm. Einn mínus við þetta var sá að álagið á vinstri öklan varð of mikið og fann ég fyrir eymslum í sinum sem studdu við öklann. Ekkert sem angraði mig við hlaupin, mátti bara vera varkár þannig að þetta versnaði ekki.

Annars var annar undirbúningur hefðbundinn, keypti mér nýjan bakpoka, hlaupabuxur og nýja skó nokkrum dögum fyrir hlaupið.

Að venju lódaði ég með Vitargo carbólóde sem hefur reynst mér vel, notaði samt ekki eins mikið og áður, kannski ¾ hluta. Svo reyndi ég að koma öklanum í stand meðan ég var ekki að hlaupa en án mikils árangurs.

Á miðvikudeginum fyrir hlaupið ákvað ég að sofa í sófanum til að vekja ekki Arnfríði sem var að fara í TDS daginn eftir, það var frekar kalt þá nóttina en ég nennti ekki að loka þakgluggunum í stofunni sem varð til þess að ég vaknaði daginn eftir með særindi í hálsinum og hósta. Ekki alveg það besta þegar 100 mílna hlaup er handan við hornið!

No comments:

Post a Comment