Sep 20, 2011

Trient til Chamonix



Rölti út í myrkrið allklæddur enda klukkan um 5 um morguninn og frekar kalt. Fáir hlauparar voru á ferli og ég gekk í rólegheitum að fjallinu en hitnaði fljótt og stoppaði enn einu sinni til að fara úr jakkanum og setja hann á pokann, í síðasta sinn ákvað ég enda búinn að fá nóg af þessum blessuðum jakka. Nú var farið að birta aðeins til og það hleypti krafti í mig og fór ég að ganga hraðar og hraðar og fór að ná öðrum hlaupurum, það kveikti vel í mér og náði ég að ganga nánasta viðstöðulaust upp á topp og nú var öndunin orðin aðeins betri. Fékk hinsvegar í fleiri skipti stingi í hamstringinn efst í fjallinu og var farinn að velta því fyrir mér hvort það væri ráðlegt að fara að æsa sig í einhverjum sprettum í restina. Upp á toppnum var glæsilegt útsýni, sólin að skríða upp fyrir fjöllin og ég sá að einn hlauparinn bara settist niður til að fylgjast með þessu en ég hélt áfram.
Nú var farið eftir stíg fyrir fjallið en sömu hæð haldið, nú fór að kólna allsvakalega því hér var ennþá skuggi og langt í að sólin færi að skína á þessa hlið fjallsins. Nennti ekki að stoppa enn einu sinni og fara í jakkann og hélt því áfram. Leiðin í næstu tímastöð Catogne var nokkuð löng og varð mér bara kaldara og kaldara þótt ég væri í langermabol og þunnu hlaupavesti. Var nánast orðinn gegnfrosinn þegar ég náði að stöðinni (144km, 31:52:55, 181 sæti) og sem betur fer höfðu þeir kveikt bál til að hlýja sér og stoppaði ég í 2 mínútur við bálið meðan ég þiðnaði.

Leiðin niður í Vallorcine er löng og oft brött og langt frá því að vera mitt uppáhald og nú hvein vel í lærunum og margir fóru framúr mér enda fór ég ekki hratt. Þegar ég fór að hitna náði ég að hlaupa hraðar og hljóp á endanum á fullri ferð niður saman með 4-5 öðrum hlaupurum síðasta spölinn sem er niður frekar erfiðan skógarstíg og svo er síðasti hlutinn lóðbeint niður í bæinn. Hljóp inn í Vallorcine stöðina (149 km, 32:58:04, 182 sæti) með stutt stopp í huga og fékk mér kók og súpu áður en ég lagði af stað í síðustu km. Fattaði þá að ég hafði ekki fengið mér gel lengi, líklega ekki síðan í Trient. Var hinsvegar fullur af orku og sá ekki neitt vit í að bæta á hana svona rétt fyrir lok hlaups. Var vel stirrður fyrstu tvo km og gat bara hlaupið stutta spretti. Reyndi samt að koma mér í gang og þegar einn hlaupari hljóp framhjá mér varð ég staðráðinn í að hanga í honum í 15 mín, ég vissi að það myndi duga til að hrista stirðleikan af mér. Var einnig umhugað að ná nokkrum sætum svona í restina, taldi mig vera í kringum 200 sæti og langaði töluvert neðar.

Það sem ég vissi líka að framundan var skógastígur sem ég þekkti og er mjög skemmtilegur og því algjör glæpur að labba. Nú fór sólin að skína þótt hitastigið væri ekkert sérstakt, líklega bara rétt yfir núllinu. Leiðinni niður í Chamonix hafði verið breytt og síðasta fjallið tekið út svo nú var bara hlaupið eftir dalbotninum sem var snöggtum skárra en 800m lóðrétt klifur sem er boðið upp á í normal leiðinni áður en brunað er niður í bæinn. Hljóp með pacernum mínum á fínum hraða og sá ég enga ástæðu til að taka framúr honum, hinsvegar þegar nær dró Argentiere fór að draga af félaganum og nú var komið að mér að draga hann áfram. Náðum fljótt nokkrum hlaupurum og einum 10 manna hópi, búinn að ná ca. 15 hugsaði ég en þarf amk að ná 25 til að vera öruggur inn á topp 200 ef eitthvað kæmi fyrir á síðustu km. Við komum samtímis inn í bæinn (154km, 34:04:44, 180 sæti) og eftir stutt kókstopp á stöðinni héldum við áfram og nú voru ca. 9 km eftir en ég vissi að leiðin yrði erfið að því leitinu að stígarnir eru þakktir grjóti og trjágreinum og ekki auðvelt að hlaupa þá. Svona stígar eru þó mitt uppáhald og sá ég strax að ég fór hraðar yfir en aðrir hlauparar og fór nú hratt að tína upp aðra hlaupara og var fljótt kominn fram úr 25 hlaupurum eftir Vallorcine.

Nú var ég kominn á fljúgandi ferð og þaut fram úr nokkrum hlaupurum sem höfðu farið framúr mér á leið niður síðasta fjallið, slóðin varð síðan bara betri og betri, minna af steinum og trjágreinum. Svo kom langur kafli upp á við og var ég nokkuð viss um að hann endaði inn á stígnum sem er hlaupinn í normal leiðinni og ég, Ásgeir og Jói höfðum tekið testhlaup á fyrr í vikunni. Vissi því akkúrat hvenær ég ætti að setja allt í rauðglóandi botn. Leiðin upp var lengri en ég átti von og nú var orðið verulega heitt, var ennþá í hlaupavestinu en ákvað að þrauka þar til ég kæmi í mark í stað þess að stoppa. Þegar ég loks komst inn á lokakaflann var ég fljótur niður á sub 4 mín pace og náði strax tveimur hlaupurum. Stutta seinna er beygt út af stígnum niður brattan malarveg og náði ég að halda góðum hraða þar niður og þar neðst beið Fríða og hlupum við saman niður í bæinn og þar bættist Helga Þóra í hópinn, stuttu seinna Siggi og Jói. Svo var hlaupið áfram niður í bæinn. Þurfti að taka mér smá pásu fyrir síðasta km til en svo var lokaspretturinn tekinn inn í bæinn eftir aðalgötunni en það er algjör skylda að taka endasprett í restina. Þar sem klukkan var að verða 11 um morguninn voru margir áhorfendur út á götunum, og var þétt röð beggja vegna síðasta km eða svo.



Sló aðeins af fyrir lokasprettinn í mark og var virkilega feginn þegar þessu hlaupi var lokið og ég gat hitt fólkið sem hafði farið með mér út í þetta ferðalag. Rétt náði að kveðja Elísabetu og Arnór en þau voru að fara heim snemma. Ásgeir jaxlinn skilaði sér svo í mark nokkrum tímum seinna á svaðalegum endaspretti að vanda.



Ansi áhugaverðu hlaupi lokið á 35:22:57, 162 sæti. Keppnin varð lengri eða 170 km þótt ég hafið lesið að hún hafi endað í 180 km og 10600m heildarhækkun (einhver hafði mælt leiðina með 2 Garmin tækjum).

1 comment:

  1. Jei!! Happy ending - alveg eins og ég vonaði! Til hamingju enn og aftur, gaman að fá að fylgjast með og enn skemmtilegra að lesa ferðasöguna :) Mæli svo með því að þú takir frá sumarið 2013 til að GANGA hringinn með okkur og njóta útsýnisins sem þú hefur misst af öll þessi ár með því að vera að þvælast þetta svona á nóttunni!

    ReplyDelete